Ég kem mér fyrir í þægilegasta stólnum í stofunni, með bók í hönd og teppi yfir fótunum. Áður en varir finn ég hvernig annríki dagsins er farið að taka sinn toll, ég halla höfðinu aftur og ég leyfi mér að loka augunum.
Allt í einu stend ég í miðri íbúðargötu og með fæturna á kafi í snjó og heyri að kirkjuklukkurnar eru að hringja inn jólin. Mér er litið inn um glugga og sé hvar karlmaður er að fara hamförum á kommentakerfi netsins.
Hann skrifar: „helvítis ríkistjórn, sem enginn kaus…..“.
Konan hans stendur og hrærir í sósu en er um leið upptekin við að taka „selfie“ af sér og nýju jólasvuntunni. Liturinn á svuntunni dregur svo skemmtilega fram þokkafulla andlitsdrættina þegar hún setur stút á nýmálaðar varirnar. Inni í herbergi eru tveir stálpaðir krakkar að senda myndskeið af hvort öðru prumpa á „snapchat“. Þau flissa, hvað ætli þeim detti í hug að senda næst?
Í næsta húsi er fólkið sest að borðum, allir nema heimilisfaðirinn, hann er rétt ókomin heim. Táningarnir eru að sjálfsögðu með snjallsímana við borðið. Þeir eru að taka á móti „snappinu“ úr næsta húsi, þegar litla systir þeirra sofnar örþreytt ofan í diskinn sinn. Þessi þriggja ára kvöl er búin að þurfa þræða mollin eftir leikskóla allan desembermánuð en henni var svo hent í pössun í gær hjá Fjólu frænku.
Fjóla var reyndar að klára að taka loftið og veggina og mátti ekkert vera að því að sinna henni. Hún náði þó að skila henni í tæka tíð í dag, rétt fyrir jólamatinn. Núna rennir heimilisfaðirinn í hlað með hlaðinn bílinn. Hann kom svo býsna vel út úr skuldaleiðréttingu heimilanna. Eins gott því annars hefði hann ekki getað keypt Kitchenaid hrærivélina, bogadregna flatskjáinn og iphone 6.
Ég geng út götuna og að kirkjunni. Það er messa, kórinn syngur falskt og organistinn er fullur. Organistinn er öllu jafna ótrúlega flinkur en þetta er skelfilegt. Hann er tónlistakennari en datt í það sökum leiða í verkfallinu. Hann var búin að vera edrú í 13 ár. Það merkilega er að enginn af kirkjugestum virðist taka eftir þessum ósköpum. Það eru allir svo uppteknir við að taka myndir á spjöldin sín og snjallsímana og setja á facebook. Svo er líka slatti af útlendingum í þessari messu, það er ekkert annað opið og það gleymdist að segja þeim frá því.
Ég hraða mér í burtu og stoppa ekki fyrr en ég er komin fyrir utan vetrarbústað fyrrum útrásarvíkings sem á glás af peningum í felum á Tortola. Hann situr einn við eldhúsborðið fyrir framan tölvuskjá. Í miðju „skype“ viðtali sker hann sér vænan bita af steik og treður upp í sig. Eftir smá stund byrjar maðurinn að roðna, svo blánar hann. Ég sé að aumingjans maðurinn er að kafna svo ég hringi í 112: „Því miður getum við ekkert gert“ segir konan á línunni „þeir læknar sem ekki eru fluttir úr landi eru í verkfalli svo það hefur ekkert upp á sig að senda bíl. Enda ekkert sjúkrahús eftir í þessu landi eftir að Landspítalinn hrundi“.
Ég hleyp af stað að finna dyr á húsinu til að bjarga manngarminum en klessi þá á sjálfan Ebenezer Scrooge og endasendist á kaf í snjóskafl. Í fallinu dettur upp úr mér orðið „sjitt“ en þá heyri ég Braga og Brynju í þættinum Orðbragð segja ávítandi tóni: „Nei ég myndi nú heldur segja „hvur rækallinn“.
Ég vakna á gólfinu í stofunni minni, guði sé lof að þetta var bara draumur. Ég þurrka svita af enninu á mér, stend upp og hugsa með mér, það skildi þó ekki vera að hátíð ljóss og friðar sé framundan?
Ég ætti kannski að kveikja á kerti?
Brynhildur Stefánsdóttir er bóndakona í bogmannsmerkinu og starfandi snyrtifræðingur á snyrtistofunni Dekur Akranesi. Hún eignaðist þrjú börn á fjórum árum, fór svo í Snyrtiakademíuna og útskrifaðist (dúx) vorið 2012. Hún er fædd í desember 1977 á Akranesi en hefur búið í Reykjavík og Manchester. Flutti fyrir 10 árum út í sveit á kúabúið Ytra Hólm og líður vel í druslugallanum innan um matjurtirnar en einnig uppstríluð í múg og margmenni. Lífsmottó: The best is yet to come