Það kannast flestir vinnustaðir við að hafa amk. einn „fúll á móti“ starfsmann í vinnu. Minn vinnustaður er engin undantekning.
Þar er ein manneskja sem brosir ALDREI, við skulum kalla hana Míu litlu því hún minnir á þann karakter úr Múmínálfunum. Mía litla er ekki glöð, reyndar hef ég aldrei séð hana brosa. Mía litla kvartar undan öllu sem hægt er að kvarta undan og sér alltaf það neikvæða í öllu.
Hún Mía litla er svo ákveðin að vera ekki glöð að hún tekur þátt í jólapakkaleik í vinnunni en er sú eina sem fer með pakkann afsíðis til að opna hann. Kanski svo hún þurfi ekki að sýna þakklæti eða ánægju ef það vill nú svo til að jólagjöfin sé ekki eins ömurleg og hún er búin að fyrirfram ákveða?
Mía litla fékk semsagt jólapakkann frá mér, ég var búin að hlakka til að sjá viðbrögð manneskjunnar sem hann fengi því ég var sjálf mjög ánægð með valið. En ég hef ekki fengið tækifæri til að spyrja Míu hvernig henni líkaði, – þegar ég kom aðvífandi stuttu eftir pakkaleikinn með frábæra jólagjöf fyrirtækisins til starfsmanna, gjöf sem alla gladdi þá fnæsti Mía og ranghvolfdi augunum.
Nú er ég nýbúin að sjá bæði „Hvernig Trölli stal jólunum“ og lesa jólasöguna um Skrögg og ég veit þessvegna að fólki eins og Míu líður ekki vel, sérstaklega ekki á jólunum þegar það er ætlast til þess af þeim að sýna þakklæti og vera í sínu besta skapi.
Ég veit hinsvegar að einhverju barni sem fær aðstoð frá Unicef mun líða vel með jólagjöfina, því jólagjöfin var keypt til styrktar Unicef og þó Mía litla kunni ekki að meta gjöfina þá gleður hún einhvern sem virkilega þarfnast hennar.
Svo ef þið þurfið að gefa einhverjum „Skrögg“ jólagjöf í ár, einhverjum sem er aldrei ánægður með neina gjöf, gefið honum/henni þá gjöf sem gefur áfram, það eru fallegar vörur til styrktar góðum málefnum í verslunum um allan bæ og jafnvel hægt að kaupa geit handa fátækri fjölskyldu á netinu.
Gleðileg Jól allir! (líka Skröggur)
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.