Ég var svo ánægð að uppistaðan í gjöfum til mín þetta árið voru íslenskar vörur og hönnun!
Í mjúka pakkanum frá kærastanum voru geggjaðar handprentaðar leggings úr Nakta Apanum sem til eru í öllum litum og engar eins -og falleg spöng með páfuglafjöðrum frá GunKat.
Og frá tengdó fékk ég klassíska litla hliðartösku úr kúaskinni frá Nönu og tengda-amma bjó til glæsilegt ofnfat handa okkur í leirkerasmíði á elliheimilinu.
Ég er alveg á því að kreppan hafi fengið fólk til að vera meira meðvitað um íslenska hönnun og opnað augu margra fyrir þeirri snilld sem hægt er að fá. Eftirminnilegustu afmælisgjafirnar mínar þetta árið voru líka skart frá Siggu og Timo, kjóll frá Eygló og skartgripatré ofl. úr Epal, svo ekki sé talað um allar góðu bækurnar og geisladiskana frá íslensku hæfileikafólki.
Við erum rík á Íslandi og getum meira segja státað af frábærum húðvörum frá Bláa lóninu og Sóley! Hver þarf að kaupa útlenska vöru á uppsprengdu verði þegar hægt er að kaupa íslenskt og styrkja þjóðfélagið í leiðinni?
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.