Á leiðinni í vinnuna í gær rakst ég á Svenna sem er lögfræðingur og bara í nokkuð góðu starfi.
Við töluðum aðeins saman eða svona þar til ég rak augun í jógúrtblett á annarri erminni á jakkafötunum hans. Maðurinn var á leið á fund en kippti sér ekkert upp við þetta smáræði, auk þess sem fötin voru krumpuð. Prótókólið í íslensku viðskiptalífi er auðsjáanlega mjög skapandi í dag.
Ég vinn við að selja föt, bæði dömum og herrum og hef gert það í þrjú ár. Auðvitað litar það viðhorfið til fatnaðar almennt.
Eitt er að ganga í fallegum fötum, annað er að vera snyrtilegur og halda fötunum hreinum. Það er auðvelt að dæma aðra en öllu erfiðara að taka til í sínu eigin drasli… en í sannleika sagt hreyfði jógúrtbletturinn það mikið við mér að við tók ein alsherjar naflaskoðun. Átti ég sjálf einhver “jógúrtdress” inni í fataskáp? Gömul og slitin föt sem ég hafði ekki tímt að henda? Stundum heltekur mig hin sérstaka íslenska nýtni sem til lengdar stuðlar að lummulegheitum par excellence. Var það kannski að fjötra mig á einn eða annan hátt?
Ég opnaði skápinn og horfði á það sem í honum leyndist með þessum augum. Skápurinn var troðinn af hinum ýmsu dressum sem höfðu ekkert að gera þar. Fyrst tók ég út öll föt sem velviljaðar vinkonur höfðu arfleitt mig að. Af hverju? Jú, af því að þau föt voru notuð, snjáð og höfðu líka að geyma orku fyrri eiganda. Það er sama hve oft þau hafa verið hreinsuð.
Næst veiddi ég út fatnað sem ég hafði keypt notaðan á mörkuðum. Svoleiðis föt eru líka hlaðin orku fyrri eigenda, hafa sungið sinn söng og það ætti engin dama að ganga í tuskum af öðrum. Tabú bara.
Ég mun sjálfsagt aldrei borða jógúrt aftur án þess að hugleiða útganginn á unga lögfræðingnum. Bara hann vissi hvað hann var hjálplegur. Eftir þetta detox í fataskápnum ef svo mætti kalla, leið mér eins og 1000 kg hefðu fokið af mér og út úr mér sprytti örmjó kona. Þessi mjóa gaf líka öll gömlu fötin til mæðrastyrksnefndar. Sjálf lét ég svo verða af því að fjárfesta í fallegu kápunni sem mig hafði langað í svo lengi.
Að þessu sögðu vil ég geta þess að ég býð upp á stíleseringu á fatnaði og tiltekt í fataskápnum. Kem heim til þín og hjálpa þér að taka til í skápnum, því betur sjá augu en auga. Áhugasamar, eða áhugasamir, geta skilið eftir athugasemd hér í kommentakerfinu og ég svara um hæl.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.