Ég veit ekki hvort það var Krysten Ritter, David Tennant, ofurhetjuþemað eða kvenhetjan sem seldi mér það að ég þyrfti að horfa á Jessica Jones, nýjustu þáttaröðina á Netflix.
En það var þetta allt saman, í sömu þáttaseríunni, sem gerði það að verkum að ég er búin að sofa frekar mikið færri tíma heldur en telst vera heilbrigt undanfarnar nætur.
Jessica Jones fjallar um (surprise, surprise) Jessicu Jones (Krysten Ritter). Jessica starfar sem einkaspæjari og er ýmsum hæfileikum gædd en þar að auki þjáist hún af fyrirtíðarspennu og kvíða og drekkur mögulega líka frekar ótæpilega.
Þessi fyrsta (og vonandi ekki eina) sería af þáttunum fjalla um baráttu Jessicu við mann að nafni Kilgrave (David Tennant) sem notar hæfileika sinn til að stjórna huga fólks til ills, meðal annars með því að notfæra sér ofurkrafta Jessicu.
Þættirnir eru unnir upp úr teiknimyndasögum frá Marvel sem kallast Alias og byrjuðu að koma út í kringum 2001, þeir gerast í nútímanum í Marvel heiminum ekki löngu eftir atburði myndarinnr The Avengers.
Konurnar hafa margar hliðar
Söguþráður þáttanna hljómar að flestu leyti mjög týpískur fyrir ofurhetjuþema en hann er það samt einhvernvegin alls ekki. Þegar ég hugsa um Marvel hugsa ég um Thor, Iron Man og Hulk, allt myndir sem eru góðar að mínu mati í sínu eigin rými en sína sinn heim samt í mjög skekktu ljósi þar sem konur koma nær ekkert eða allavega mjög takmarkað við sögu.
Þær sýna heim þar sem konur hafa aðeins eina hlið, þær eru annað hvort sterkar eða veikar, kaldar eða heitar, klárar eða heimskar. Jessica Jones sýnir aftur á móti margar konur sem allar eru mismunandi, hafa mismunandi hvata og margar hliðar. Jessica sjálf er sterk en samt sem áður niðurbrotin eftir áföllin sem hún hefur gengið í gegnum, stærsta ástin í lífi hennar og hennar mikilvægasta samband er ekki samband við karlmann heldur samband hennar við bestu vinkonu sína, Trish (Rachael Taylor). Það samband er ekki heldur einhliða, saman eiga þær sína sögu sem er flókin og gerir það að verkum að þeim kemur ekki alltaf saman.
Feminísk ofurhetja?
Þættirnir hafa eitthvað farið fyrir brjóstið á helstu Marvel aðdáendunum, þó þeir hafi fengið nær einróma lof gagnrýnenda, þar sem þeir eru meira um venjulegt fólk, með óvenjulega hæfileika, fremur en að þeir séu um ofurhetjur.
Aðalsöguhetjan var eitt sinn ofurhetja en er það ekki lengur og andstæðingur hefur engin áform um það að ná heimsyfirráðum, það eina sem hann vill er Jessica. Þar að auki eru Hulk og Captain America móðgaðir með því að vera kallaðir “the green dude and the flag waver”. Mér finnst þetta aftur á móti vera hressandi og það sem mér finnst en meira hressandi er það að það er ítrekað minnst á hluti sem tengjast umræðu femínista líkt og kröfu karlmanna um að konur eigi að brosa til að vera fallegar, samþykki til kynlífs, nauðgun og það hvernig konur skilgreina sig út frá karlmönnunum í lífi þeirra.
Það sem meira er þá eru karlmennirnir í þáttunum ekki heldur bara týpískar steríótýpur alltaf, allan tímann. Þeir eru líka, líkt og kvenpersónurnar, ekki bara góðir eða illir, heldur geta þeir líka farið inn á ýmiskonar grá svæði sem gera þá bara mannlega og sem í einhverjum tilvikum lita þá jafnvel einhverju sem gæti flokkast sem týpískir kvenlegir eiginleikar.
6. Atriði sem þú ættir að taka eftir í Jessica Jones þáttunum:
1. Flóknu sambandi Jessicu og Trish.
Afbrýðsemin á milli þeirra nær samt aldrei að yfirgnæfa neitt annað. Taktu einnig eftir hjálparleysinu sem Trish finnur fyrir af því hún er ekki líkamlega fær um að aðstoða Jessicu. En samt fyrst og fremst því hvað samband þeirra er þeim mikilvægt og því hve mikil væntumþykja er þeirra á milli.
2. Sergeant Simpson
…og hvernig hann höndlar sitt áfall í byrjun á mjög ótýpískan hátt fyrir efni af þessum toga.
3. Fjölbreyttu leikaravali og söguhetjum
…í fyrsta lagi er Krysten Ritter ekki týpísk í hlutverk eins og þetta þó hún passi alveg einstklega vel í þetta hlutverk þá hefði verið auðvelt fyrir Marvel að ráða einhverja hefðbundið fallega “Hollywood-lega” leikkonu í þetta hlutverk og samt grætt á þáttunum. Í þáttunum eru samkynhneigð pör án þess að það sé nokkurtíma talað um að þau séu samkynhneigð eins og það sé eitthvað sem þurfi að taka fram, man ekki einu sinni að orðin lesbía eða hommi séu nokkurtíma sögð (ekki frekar en gagnkynhneigður), litaðir leikarar eru áberandi og konur og sögurnar þeirra eru í sviðsljósinu nær allan tímann.
4. Malcolm (Eka Darville)…
sem ég vil ekki segja of mikið um þar sem það er ekki hægt án þess að spilla sögunni, en endilega takið ekki bara eftir því hvað hann er fallegur heldur líka eftir yndislegum fatastílnum (Jazzercize!) og því hlutverki sem hann hefur í lífi Jessicu. Það er eitthvað sem oftast snýr hinsegin.
5. Hogarth (Carrie Ann Moss)
…sem er karakter sem í teiknimyndasögunum var karlmaður og var greinilega ekki mikið breytt fyrir utan kynið sem mér finnst alveg stórskemmtilegt að fylgjast með.
6. Kilgrave…
þrátt fyrir fáranlegt nafnið og ömurlega, hörmulegu, ógeðslegu hlutina sem þessi karakter gerir stóð ég mig að því að afsaka hann og vorkenna honum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Kannski er það fáranlega sjarmanum sem David Tennant býr yfir að kenna, kannski “snazzy” fötunum sem hann klæðist.
Hvað sem því líður þá finnst mér alveg einstaklega aðdáunarvert af þeim sem framleiða og gera þessa þætti, og af David, að skapa skrímsli sem er ekki bara skrímsli. Það er líka mannlegt og karakterinn minnir meira að segja líka oft á það skelfilega feðraveldi sem við búum við í dag. Kilgrave er hvítur maður í jakkafötum sem hefur alist upp við að fá allt sem hann vill.
Þó hann stjórni hugsunum fólks á mun ýktari og auðvitað bókstaflegri hátt heldur en hvítir menn í jakkafötum gera í okkar heimi þá er eitthvað mjög hryllilegt við það að heyra hann lýsa því hvernig hann snýr hlutunum alltaf þannig gagnvart Jessicu að hann hafi rétt fyrir sér, sem er eitthvað sem ég verð að segja að er eitthvað sem margar konur kannast við.
Fyrir hverja er Jessica Jones?
Ég ætla að ganga svo langt að mæla ekki eingöngu með þessum þáttum við þá sem elska ofurhetjuævintýri eða Sci-Fi eða eitthvað í þá áttina (er kannski glæpur að hafa það tvennt í sömu setningu…) og ég ætla að mæla með þessu við alla þá sem elska sakamálaþætti, við alla femínista og við alla sem elska að horfa á vel skrifað og vel framleitt efni af öllu tagi. Ég öfunda ykkur öll að eiga eftir að horfa á þessa þætti…
[usr 4.5]
Svo er auðvitað ekkert verra að lagið “Thousand Eyes” með Of Monsters and Men var notað í trailerinn:
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=nWHUjuJ8zxE[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.