Í Hollywood fyrirfinnst mikið af skrýtnum fígúrum. Allskonar fólk laðast að þessum glysgjarna bæ í von um frægð og frama, og sumir svífast einskis til þess að komast á toppinn.
… eða eins og Stuðmenn sungu forðum: ,,Ég færi heljarstökk aftur á bak af litlu bretti fyrir frægðina”
Ég hugsa oft til þess hvað stjörnurnar sem við fylgjumst með daglega hafa gert og gera enn til að halda sér í sviðsljósinu.
Stuðmaðurinn geðþekki hefði gert allt nema koma fram nakinn en hann er líklega einn um það -flestir sem ætla sér að klófesta frægðina þurfa á einhverjum tímapuntki að sleppa prinsippum, draga inn magann og rífa sig úr.
Ein af fyrstu Hollywood stjörnunum sem gekk hvað lengst á sínum tíma til þess að fá athygli var ljóskubomban klóka Jayne Mansfield.
Þessi unga stúlka, sem var með hærri greindarvísitölu en flestir eða 163 (meðaltalið er 100), átti sér þann draum að verða fræg en samtímis var hún meðvituð um að hvorki var hún besta leikkonan né nægilega falleg til að komast klakklaust áfram. Það sem hún hafði hinsvegar var útsjónarsemi og stór brjóst -hvoru tveggja nýtti hún sér út í ystu æsar.
Sama hvaðan gott kemur?
Geirvörtur sem litu til veðurs á rauða dreglinum, rassasaumar sem gáfu sig í miðri myndatöku, vindhviður sem feiktu upp pilsfaldi svo efnislitlar nærbuxur urðu sýnilegar öllum nær- og fjærstöddum og bikiní-toppar sem losnuðu í sundlaugapartýum með pressuna á fremsta bekk. Mansfield gerði allt í sínu valdi til að fá athygli og í hennar huga var öll umfjöllun góð umfjöllun.
Það fór svo að á einu ári, ’56-’57 voru skrifaðar um hana 122.000 línur í dagblöðum, 2.500 myndir voru birtar af henni og hún þótti vera sú manneskja sem mest var talað um í Hollywood.
Jayne Mansfield var sem sagt allstaðar, nærbuxnalaus.
Neyðin kennir naktri konu að fá athygli
Mansfield uppskar vel af sínum uppátækjum og fékk hvert hlutverkið á eftir öðru ásamt því að sýna á Broadway. Hún sat fyrir hjá Playboy og átti þátt í því að blaðið varð gríðarlega vinsælt á stuttum tíma. Hún öðlaðist frægð með því að leggja hart af sér, þrátt fyrir að fylgja óhefðbundnum leiðum.
Jayne varð stórstjarna á einni nóttu.
Marilyn Monroe er vissulega stærra nafn á heimsvísu en Mansfield er uppáhald margra, sérstaklega útaf því hversu skemmtilega útsmogin hún var í að ná fram markmiðum sínum. Heimsbyggðin missti andlitið yfir þessari heillandi en vúlgar ljósku og pressan elti hana á röndum -enda aldrei lognmolla í kringum þessa ýturvöxnu dömu.
Brjóstin úti -og hvað með það?
Jayne Mansfield skaust hratt upp á stjörnuhimininn en ferillinn varð fremur skammlífur. Fljótleg upp úr 1960 þreyttust aðdáendur á því Mansfield beraði sig við öll tækifæri og byrjuðu uppátækin hennar að bera merki um hreina athyglissýki.
Að lokum fékk fólk nóg og leikurinn snerist upp í andhverfu sína. Mansfield var búin að fara úr öllum fötunum og það var ekkert eftir að sjokkera með. Hlutverkin þurrkuðust upp, ljósmyndararnir hættu að smella af myndum og gulltímabil ljóskunnar rann sitt skeið.
Mansfield stóð uppi sem fimm barna móðir, útskúfuð úr glysheiminum og ráðalaus.
Satanisti á kafi í djöflatrú
Jane Mansfield var ekki öll þar sem hún var séð og átti sér margar einkennilegar hliðar. Árið 1966 heimsótti hún Djöflakirkjuna í San Fransisco og fór svo að hún gekk í trúfélagið og gerðist djöfladýrkandi.
Jane hafði áður verið viðriðin kaþólska trú og einnig sýnt gyðingdóm áhuga en í djöflatrúnni virtist hún finna sig og gaf sig alla í trúna, reyndar svo ákaft að hún lærði satanísku biblíuna utanbókar og hlaut titilinn Gyðja hinnar satanísku kirkju San Fransisco.
Líkt og með allt annað í lífi sínu var Jayne Mansfield afar opinská með trú sína og í bleiklituðu svefnherbergi hennar hékk innrammað plagg með staðfestingu á því að hún væri meðlimur í kirkjunni.
Sagt er að Jayne hafði tilbeðið djöfulinn oft á dag og batt vonir við það að djöfullinn sjálfur myndi gera hana að eilífri Hollywoodstjörnu.
Að kveðja með látum
Stjarnan lést sviplega í hræðilegu bílslysi ásamt ástmanni sínum árið 1967. Í bílnum með þeim voru þrjú barna hennar en þau sluppu öll ómeidd. Lengi lifði sú saga að Mansfield hafi verið hálshöggvin þegar blæjubíll þeirra fór undir stóra langferðabílalest en það reyndist síðan vera rangt. Orðrómurinn varð samt sem áður nægilega sterkur til þess að Jayne Mansfield var enn einu sinni á allra vörum.
Endalok Mansfield gerðu það þó að verkum að hún náði að festa sig í sessi sem eilíf Hollywoodstjarna, með daðurslegt bros og fullkomnlega staðsetta brjóstaskoru.
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.