Sameinuðu þjóðirnar eru nú farnar af stað með þörfustu og flottustu vitundarvakningu sem ég hef séð um ævina, og þá er vissulega mikið sagt en ég trúi því, heilt og í gegn, að ef árangur næst með þessu átaki þá séu sannarlega bjartari tímar framundan.
Vakningin hefur fengið nafnið #HeForShe og með henni hvetja Sameinuðu Þjóðirnar karlmenn til að taka þátt í baráttunni fyrir því að konur fái sömu réttindi og njóti sömu virðingar og karlar.
Nú hafa rúmlega 5000 íslenskir karlmenn skrifað undir, talsvert fleiri en í flestum löndum Evrópu og fleiri en í öllum norðurlöndum. Þetta eru bara góðar fréttir!
Einnig er gott að hvetja til fleiri undirskrifta hjá vinum okkar í öðrum löndum því það vantar talsvert upp á að evrópskir karlar nái okkur.
Þú getur séð hvernig gengur að safna undirskriftum á þessu rauntímakorti.
Skrifa undir
Emma Watson vakti mikla aðdáun og eftirtekt með ræðu sem hún hélt á þingi Sameinuðu þjóðanna en hér segir hún einlæglega frá því hvers vegna feminismi skiptir hana máli, og hvers vegna hið litaða orð ‘feminismi’ sé aukaatriði, það sé það sem liggur að baki sem skipti öllu.
Ég hvet þig til að hlusta á ræðuna hennar. Hún hefur mikil áhrif.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=Q0Dg226G2Z8[/youtube]
Þó að við höfum það gott hér á Íslandi og að margvíslegir sigrar hafi unnist er enn margt sem betur má fara þegar kemur að tilveru kvenna.
Við íslendingar búum þó í himnaríki miðað við það sem gengur á flestum í löndum heimsins en víða er staða kvenna þannig að búfénaður hefur það umtalsvert betra.
Ef einhver réttindabarátta skiptir máli og getur breytt heiminum til hins betra þá er það baráttan fyrir því að konum og stúlkum sé sýnd virðing í verki.
-Að konur og stúlkur fái notið þeirra mannréttinda að ráða yfir eigin líkama, að mennta sig, að fá sömu laun fyrir sama framlag, – svo fátt eitt sé nefnt.
En þessi sigur mun aldrei vinnast ef karlmenn, strákar, menn taka ekki þátt í þessari mannréttindabaráttu líka.
Og ef við byrjum núna þá verður hugsanlega hægt að greina augljósa breytingu eftir 50-100 ár.
Byrjum núna. Skrifið undir strákar mínir. Fyrir konurnar sem þið elskið, konurnar sem ykkur þykir vænt um, dætur ykkar, systur, mæður, vinkonur, ástkonur… – en aðallega fyrir ykkur sjálfa.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.