Sýning Íslenska dansflokksins, Persóna, verður frumsýnd 4. maí á Nýja sviði Borgarleikhússins.
Persóna er einstakt og persónulegt danskvöld þar sem frumflutt verða tvö ný dansverk eftir þrjá íslenska danshöfunda þar sem dansarinn sjálfur er í forgrunni.
Halla Ólafsdóttir og Lovísa Ósk Gunnarsdóttir vinna sitt hvoru megin Atlandshafsins.
Halla er búsett í Stokkhólmi og starfar sem danshöfundur og dansari víða um Evrópu við góðan orðstír en hún hlaut t.a.m. Prix Jardin d’Europe á Impulz Tanz hátíðinni 2013.
Lovísa er Grímuverðlaunahafi sem hefur tekið þátt í velflestum uppfærslum Íslenska dansflokksins síðan árið 2005 en einnig hefur hún starfað í sjálfstæða geiranum sem danshöfundur og dansari. Þær stöllur koma reglulega saman og vinna undir nafninu Samsuðan & co.
What a feeling!
Síðan 2005 hafa þær skapað verkin Kólnandi Kaffi, Hundaheppni, Grease the Deleted Scenes og eru hér mættar með verkið What a feeling. What a feeling býður upp á sex ólíka sólódansa sem þær hafa skapað í samvinnu við dansara Íslenska dansflokksins byggða á löngunum, þrám og sögu hvers dansara fyrir sig.
Neon
Hannes Þór Egilsson leitar eftir hreyfingum og samsetningu sem eru bæði örvandi og skemmtileg fyrir augu og eyru í verkinu Neon. Hannes er dansunnendum velkunnugur en hann dansaði lengi vel með Íslenska dansflokknum ásamt því að koma fram með listahópi Kristjáns Ingimarssonar.
Nú síðast sló hann í gegn sem Óður í sýningu Íslenska dansflokksins á Óður og Flexa halda afmæli en ásamt því að leika annað titilhlutverkanna var Hannes annar tveggja höfunda sýningarinnar.
Þyri Huld Árnadóttir, meðhöfundur Hannesar í sýningunni Óður og Flexa halda afmæli, er að þessu sinni búningahönnuður Neon ásamt því að vera einn af dönsurunum.
Búningarnir er bæði smart og nútímalegir enda bera þeir óvenjulegt mynstur sem er í raun listaverk eftir bróður hennar, Árna Þór Árnason myndlistamann.
Verkið sem prýðir hluta búningana heitir Hreint málverk og er unnið með olíutússpennum á striga með hjálp heimilistækisins „Robomop“ sem hannað er til þess að þurrka af parketgólfi og flísum.
Persóna verður sýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins og sýningarnar fara fram 4/5, 8/5, 12/5, 20/5 og 22/5. Þú getur smellt hér til að kaupa miða eða fræðast enn frekar um sýninguna.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.