Fáar bækur höfðu jafn mikil áhrif á mig og þjóðsögur Jóns Árnasonar þegar ég var barn.
Ég hámaði þessar sögur í mig, enda voru þær hrikalega krassandi. Ég trúði á sumt og annað ekki. Trúði því til dæmis að draugar og álfar væru til en ég var ekki eins viss með marbendla og móra.
Langamma mín, hún Ágústa Hjartar, sagðist jú hafa hitt álf inni í Dýrafirði og auðvitað trúir maður öllu sem langamma manns segir.
Mér fannst mest gaman að lesa draugasögurnar en þegar ég varð aðeins eldri fékk ég sérstakan áhuga á skessum. Gilitrutt, Búkolla, Surtla, Gellivör, Trunt Trunt og tröllin í fjöllunum og allar hinar. Þetta voru stórmerkilegar kerlingar!
Oftast bjuggu þær einar í einhverjum hellum þótt sumar hafi verið í sambandi.
Skrítnustu sögurnar fjölluðu um skessur sem rændu eða lokkuðu til sín saklausa smala og grasakarla, lokuðu þá inni í hellunum og höfðu þá sem kynlífsleikföng.
Þær voru stórar, ljótar, vergjarnar og stjórnsamar.
Ef karlarnir létu ekki strax undan þá dekruðu þær þá til lags við sig og þegar þær fengu leiða á þeim þá ýmist skiluðu þær þeim til baka, alveg snarvitlausum, eða káluðu þeim og átu svo. Einmitt. Þetta var alveg „hard core“.
Eins og við vitum öll eru ævintýri og þjóðsögur einhvers konar aldagömul sálfræðiþerapía. Leið til að skilja og jafnvel vinna úr andlegum erfiðleikum. Sögunum var, og er, ætlað að kenna okkur að rata í lífinu, vara okkur við hættum og velja rétt.
En út á hvað gengu eiginlega þessar hrikalegu skessusögur?
Var þeim ætlað að vara okkur við frekum, miðaldra konum? Tengdist þetta kannski misnotkun eldri kvenna á yngri karlmönnum í baðstofunum? Eða var þetta mögulega óttinn við mislyndi móður jarðar? Eða allt þrennt og meira til?
Trunt trunt og Tröllin í fjöllunum Einu sinni voru tveir menn á grasafjalli. Eina nótt lágu þeir báðir í tjaldi saman. Svaf annar, en hinn vakti. Sá þá hinn er vakti, að sá sem svaf, skreið út. Hann fór á eftir og fylgdi honum, en gat naumast hlaupið svo að ekki drægi sundur með þeim. Maðurinn stefndi upp til jökla. Hinn sá þá hvar skessa mikil sat á jökulgípu einni. Hafði hún það atferli að hún rétti hendurnar fram á víxl og dró þær svo upp að brjóstinu, og var hún með þessu að heilla manninn til sín. Maðurinn hljóp beint í fang henni, og hljóp hún þá burt með hann. Ári síðar var fólk úr sveit hans á grasafjalli á sama stað; kom hann þá niður til þess og var fálátur og ábúðarmikill svo varla fékkst orð af honum. Fólkið spurði hann, á hvern hann tryði, og sagðist hann þá trúa á guð. Á öðru ári kom hann til sama grasafólks. Var hann þá svo tröllslegur að því stóð ótti af honum. Þó var hann spurður, á hvern hann tryði, en hann svaraði því engu. Í þetta sinn dvaldi hann skemur hjá fólknu en fyrr. Á þriðja ári kom hann enn til fólksins; var hann þá orðinn hið mesta tröll og illilegur mjög. Einhver áræddi þó að spyrja hann að, á hvern hann tryði, en hann sagðist þá trúa á "trunt, trunt og tröllin í fjöllunum" og hvarf síðan. Eftir þetta sást hann aldrei, enda þorðu menn ekki að vera til grasa á þessum stað nokkur ár á eftir.
Mig dreymdi eitt sinn merkilegan draum um skessu. Ég var tíu ára, í sveit í Skorradal. Þetta var mild sumarnótt. Við höfðum verið að raka allann daginn og það lá svona ljúfur regnúði í hálfbjörtu loftinu. Mig dreymdi sjálfa mig sofandi í herberginu mínu sem var undir súð. Svefnherbergisglugginn sneri að túninu. Allt í einu hrökk ég upp við gríðarlegar drunur.
Ég reisti mig upp, leit á klukkuna og sá að klukkan var fimm. Leit svo út um gluggann og sá hvar gríðarlega stór skessa kom hlaupandi niður fjallshlíðina, einbeitt og staðráðin á svipinn. Augun stálblá. Jörðin nötraði í hvert sinn sem risastórir, berir fæturnir skullu niður. Hárið blautt og flaksandi. Hún hljóp yfir túnið, stefndi í átt að sjónum… og ég vaknaði! Spratt upp og leit út um gluggann en sá enga skessu. Bara regnúðann á glerinu og algera kyrrð en klukkan var akkúrat fimm. Skessan hefur bara ekki þorað öðru en að hitta mig í draumi. Hún hefur ekki viljað hræða mig meira 😀
Í gær rifjaðist þessi draumur upp fyrir mér og ég fór eitthvað að gúggla skessur og myndir af þeim en fann ósköp lítið.
Því langar mig að deila með ykkur nokkrum fínum skessumyndum úr þjóðsagnabók eftir Ásgrím Sveinsson sem var gefin út 1959. Þetta eru stórskornar kerlingar. Ótrúlega öflugar og sterkar en stórhættulegar víst nema þær væru með manni í liði.
Hvers eiga skessur að gjalda? Við þurfum fleiri!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.