Ég segi oft við sjálfa mig að mig langi að skoða og sjá meira af Íslandi. Upplifa landið og náttúruna en núna á sunnudaginn síðasta gerði ég akkúrat það…
Ég fór ásamt kærasta mínum, sem átti afmæli, að snorkla í Silfru á Þingvöllum en Silfra er oft nefnd sem einn besti staður til að kafa á og er því að mínu mati möst fyrir alla íslandinga að sjá.
Ég fór í skipulagða ferð-Into the Blue, með Arctic Adventures þar sem mjög indæll leiðsögumaður tók á móti okkur, kenndi okkur öll helstu atriði og lánaði okkur allan nauðsynlegan búnað; dún-galla, blautbúning, hettu og hanska, blöðkur og gleraugu ásamt snorklgræjum sem gera þér kleift að anda í vatninu.
Ferðin byrjar þannig að þú hittir leiðsögumanninn og fólkið sem mun fara í ferðina með þér á Þingvöllum, því næst keyra allir að Silfru. Þar lærum við um búnaðinn sem notaður er og við dressuð upp. Þá er maður bara tilbúinn til að dýfa sér rólega í vatnið. Þetta er allt mjög auðvelt og aðgengilegt og maður þarf voða lítið að hafa fyrir þessu. Maður flýtur hreinlega rólega með straumnum og getur því gleymt sér í að dást af umhverfinu sem er svo ótrúlega fallegt og róandi.
Vatnið er gríðarlega tært og maður sér marga metra fyrir neðan sig og fram fyrir sig…ólýsanlega fallegt.
Svo er mjög gaman að kíkja reglulega upp úr vatninu og skoða umhverfið því að eins og einhver sagði…
…þetta eru eins og tveir gjörólíkir heimar…ofan í vatninu og upp úr vatninu. Vá!
Þegar maður kemur að endastöðinni fara allir upp úr vatninu en ferðin er ekki alveg búin þar heldur fá þeir sem vilja að stökkva fram af klettum og ofan í kristaltært vatnið, mjög spennandi og skemmtilegt. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum með þessa ferð, hún var bæði spennandi og ótrúlega falleg! Mig langar strax aftur!
Þessi ferð er fyrir alla og þú þarft enga reynslu að köfun né snorkli að hafa til að skoða einn fallegasta og ævintýralegasta stað á Íslandi að mínu mati. Smellið hér til að fá allar nánari upplýsingar um snorkið í Silfru.
Guðný Hrönn Antonsdóttir útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands 2011 með B.A í Myndlist. Árið 2012 kláraði hún svo Tísku- og auglýsingaljósmyndun í Fashion Academy Reykjavík. Hún er fædd í október 1988 og hefur ótæmandi áhuga á tísku, förðun, myndlist og shitzu hundum.