Íris Ann er (frá og með deginum í dag) 31 árs þúsundþjalasmiður, móðir, veitingastaðaeigandi, eiginkona og ljósmyndari.
Hún lærði bæði ljósmyndum og sjónlist á Ítalíu og ásamt eiginmanni sínum, Lucasi Keller, rekur hún hinn geysivinsæla veitingastað The Coocoo’s Nest sem er í gömlu bátahúsunum úti á Granda (við hliðina á Valdísi). Saman eiga þau tvo flotta stráka, þá Óðinn Sky, 2 ára og Indigo Mími sem er aðeins 6 vikna.
Við tókum Írisi aðeins undir smásjána til að komast að því hver hún er eiginlega.
Hvernig byrjar þú vanalega daginn?
Við maðurinn minn skiptumst á að undirbúa eldri strákinn til að fara í leikskólann. Mér finnst best þegar ég fæ að kúra með yngsta yngri stráknum smá frameftir og svo fer ég á fætur í rólegheitum. Þá set ég notalega tónlist á fóninn og bý mér til næringaríkan boozt.
Hvað er það besta sem hefur komið fyrir íslenska menningu eftir hrun?
Það er ýmislegt sem kom jákvætt út úr hruninu. Til dæmis fannst mér fólk verða meðvitaðara með að endurvinna og nýta hluti í staðinn fyrir bara að henda og kaupa nýtt. Svo var ýmislegt sem blómstraði í menningunni. Þegar fólki missti vinnuna sína þá fóru margir að sinna áhugamálum eins og tónlist og öðrum listrænum áhugamálum sem lífguðu uppá menninguna. Margir sköpuðu sér sína eigin vinnu og bjuggu til spennandi og áhugaverð sprotafyrirtæki.
Hver er uppáhalds borgin þín, fyrir utan Reykjavík?
Mér fannst mjög gaman að búa í Milanó, hún hefur upp á svo ótrúlega margt og mikið að bjóða og svo er auðvelt að hoppa upp í næstu lest ef maður vill fá pásu frá stórborginni.
Lucas maðurinn minn er frá Norður Kaliforníu þannig við heimsækjum einnig oft San Francisco, ég á erfitt að gera uppá milli hennar og Milanó. San Francisco er ofboðslega litrík og skemmtileg borg með dásamlega matarmenningu!
Í hverju ertu svakalega góð?
Ég læt verða úr hlutunum, geri það sem ég ætla mér.
Í hverju ertu svakalegaléleg?
Ég er stundum fljótfær og hvatvís, svo gæti ég ekki sungið til að bjarga lífi mínu.
Hvað pantarðu ofan á pizzu?
Lucas maðurinn minn gerir eina súrdeigspizzu sem er unaðsleg, á henni eru ferskur mozzarella, gráðostur, epli, lífrænt hunang & heslihnetur!
Hvaða mynd tókstu síðast á símann þinn? Megum við sjá hana?
Ég fékk Lucas til að taka mynd af mér og Indigo litla stráknum mínum í göngutúr.
Hefurðu farið til sálfræðings?
Nei en ég hef fengið andlegan stuðning á annan hátt, til dæmis finnst mér voða gott að fara í heilun þegar mikið gengur á. Ég er ófeimin að tala um vandamál mín og á góða vini og fjölskyldu sem hafa sinnt hlutverki sálfræðinga. Einnig finnst mér ótrúlega gott að fara út að hlaupa til að hreinsa hugann!
Hvað áttu marga vini á Facebook?
842
Hver finnst þér helsti kosturinn og helsti gallinn við Facebook?
Mér finnst þetta frábært tól til þess að halda sambandi og fylgjast með vinum og fjölskyldu okkar erlendis. Svo hefur Facebook reynst mér vel í starfinu mínu. Sem ljósmyndari er maður sýnilegri og það er auðveldara að fylgjast með og vera í sambandi við fólk í svipuðum geira ef manni vantar til dæmis sminku eða módel. Helsti gallinn er bæði hvað þetta tekur mikinn tíma frá manni og svo finnst mér sumir tjá sig óþarflega mikið, allt er gott í hófi 🙂
Hefurðu keypt eitthvað á netinu?
Já ég hef gert það, seinast keypti ég mér ótrúlega fína linsu á myndavélina mína frá Ebay!
Ertu trúuð?
Já, mjög en alveg á minn hátt. Ég trúi á alheimsorku og finnst gaman að galdra með því að nota orku frá náttúrunni og hugleiðslu.
Ef þú gætir vaknað á morgun í líkama annarar manneskju, hver væri það og hvað myndirðu gera?
Ég væri til í að prufa upplifa dag sem Sky, tveggja ára sonur minn, hlaupa um áhyggulaus og ómeðvituð um vandamál heimsins.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.