Ég var að rekast á event á Facebook sem fékk mig til að skellihlægja og auðvitað ætla ég að taka þátt.
Eventinn stofnar Jón Birgir Gunnarsson og lýsingin er að maður getur mótmælt hvar sem er, til dæmis í sófanum heima hjá sér, en yfirskriftin er:
„Nenni ekki að hlusta á þetta lið sem er pirrað yfir öllu og öllum og efnir til byltingar til að sýna samstöðu um hitt og þetta.”
Mér finnst þetta gott framtak af því í sannleika sagt þá er ég orðin óskaplega þreytt á reiðinni og neikvæðninni sem einkennir umræðuna hér á landi og hefur gert síðustu 7 árin, eða frá því að góðærisblaðran sprakk.
Það er eins og innbyrgð reiði fái réttlætta útrás í öllu sem viðkemur pólitík, og svo lengi sem einhver í flokknum sem reiða manneskjan kaus ekki, opnar munninn, þá er komið tilefni til að segja allskonar ljóta, reiða og leiðinlega hluti.
Þetta er svona eins og á Þjóðhátíð þegar öllum hömlum er kastað og það er allt í einu “í lagi” að vera ofurölvi á smjörsýru með trúðahatt í kraftgalla í þrjá sólarhringa.
Þannig er það með pólitík á Íslandi. Þegar það kemur að því að tjá sig um þá sem fólk kýs ekki eða eru pólitískir andstæðingar; þá er í lagi að vera eins og froðufellandi varúlfur á lyklaborðinu. Neita algerlega að sjá það sem er þó jákvætt í stöðunni, – af því flokkurinn sem hann/hún kaus ekki “gerir auðvitað ekkert jákvætt”.
Mjög oft markast þó umræðan af misskilningi. Fyrirsögn er slegið upp og neytendur vefmiðla dæma út frá henni en lesa ekki sjálfa fréttina. Það þarf að passa þetta vel. Mynda sér ekki skoðun út frá fyrirsögn með skrítinni mynd eða því sem einhver í kaffinu í vinnunni segir.
Maður á alltaf að lesa og ákveða sjálf/ur. Persónulega finnst mér best að hlusta á útvarpsfréttirnar á RÚV og lesa þær á Mbl.
Á þessum stöðum vinnur fólkið með mestu reynsluna.
Árið 2008 vann ég við fréttaskrif og fleira á vefmiðli sem þá skipti miklu í umræðunni og heitir Eyjan.
Þarna upp úr haustinu, þegar alþjóðleg fjármálakreppa skall á, fékk ég fljótlega leiða á umræðunni og stemmingunni sem einkenndist númer 1. 2. og 3 af ásökunum og reiði. Þetta var eins og að vera með Útvarp Sögu glymjandi í eyrunum allan sólarhringinn. Pyntingaraðferð frá norður-Kóreu.
Í febrúar 2009 stofnaði ég Pjattið.
1. Af því það vantaði jákvæðan vefmiðil í íslensku vefmiðlaflóruna.
2. Af því það vantaði vefmiðil fyrir konur í íslensku vefmiðlaflóruna.
3. Af því það vantaði meiri gleði og jákvæðni í íslensku vefmiðlaflóruna.
Það vantaði meiri meðmæli, ekki mótmæli.
Taktu nú vel eftir: Ég er alls ekki að segja að við eigum að hætta að hafa skoðanir á því sem miður fer. Það þarf bara að jafna aðeins andrúmsloftið í litla landinu okkar. Litla ættbálkasamfélaginu, sem rúmar færri íbúa en hin agnarsmáa villta og spillta eyja, Sikiley.
Við þurfum að vera meiri vinir svo að þetta gangi allt saman betur. Standa betur saman um að hafa umræðuna uppbyggilega og jákvæða. Stjórnmálafólkið okkar þarf að hætta að rífast og reyna eftir öllum mætti að skilja hvort annað og reyna að finna málamiðlanir. Setja slíkar vinnuaðferðir í fyrsta sæti.
Það er hvort sem er aldrei einn sem hefur 100% rétt fyrir sér af því það eru alltaf margar hliðar á einu máli.
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=ib-Qiyklq-Q[/youtube]
Gáfulegast væri að fara með hópinn á Alþingi í HAM eða í hugræna atferlismeðferð. Það væri líka þjóðráð að hóa í vinnustaðasálfræðing og þau þurfa eflaust flest að brjóta pínu odd af oflætinu. Þá myndi þetta ganga betur, það er ég sannfærð um.
Nú legg ég til að við tökum höndum saman og hættum þessari netreiði. Prófum í nokkra daga að leita að því sem er jákvætt og segjum frá því. Kommentum á góðar fréttir og deilum þeim og segjum ekkert um það sem við höfum ekki kynnt okkur sjálfar og myndað okkar persónulegu skoðun á. Og ef við höfum eitthvað að segja, höfum þá hugfast að aðgát skal höfð í nærveru sálar og öll erum við manneskjur. Leitum að jákvæðni. Blásum hana upp. Stofnum til MEÐMÆLA AÐGERÐA.
*Stubbaknús*
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.