Síðasta sumar sáu rúmlega 21.000 manns sýningar Sirkus Íslands. Í ár er ferðalaginu heitið til Vestmannaeyja, Blönduóss, Fáskrúðsfjarðar og Siglufjarðar og einnig verður tjaldað á Klambratúni í Reykjavík.
Þrjátíu sirkuslistamenn manna sirkuslestina og sjá um öll störf í sirkusnum. Þau sýna loftfimleika, klæðast trúðabúningum, elda mat, selja miða, rúlla sér á hjólaskautum, leika ljón, spúa eldi, poppa, snúa kandíflosi, sjá um miðasölu, húlla, takast á loft, stela senunni, og setja upp og taka niður Jöklu, sem er fyrsta farandsirkustjaldið á Íslandi.
Börn, allir og fullorðnir
Þrjár mismunandi sýningar verða sýndar á hverjum stað. Heima er best er stóra fjölskyldusýningin,
S.I.R.K.U.S. er krakkasýningin sérsniðin að leikskólaaldri, þó ekki á kostnað eldri áhorfenda, og svo er það fullorðinssirkusinn Skinnsemi – sirkuskabarett með fullorðinsbragði sem er bönnuð innan 18 ára. XXX
Í sumar verða erlendir gestalistamenn með í för, flestir á Fullorðinssirkusnum Skinnsemi:
Paula Alvalá er brasilískur kontortionisti (twittervinir okkar stinga upp á íslensku orðunum snákakona, beygla og sambrotstæknir) sem bæði fettir sig og brettir á jörðu niðri og uppi í loftinu. Hún verður með í í Skinnsemi – Fullorðinssirkus í allt sumar.
Mama Lou er kraftakona frá Bandaríkjunum sem mer epli á tvíhöfðanum, rífur símaskrár í tvennt og brýtur matprjóna með rasskinnunum. Hún verður með á sýningunni Skinnsemi í Vestmannaeyjum. Daman hefur áður komið til Íslands og komið fram með sirkusnum.
Matthias Goed er austurrískur og einfaldlega alinn upp í sirkus. Móðir hans er loftfimleikadís og fósturpabbi hans er sirkusstjóri í Circus Aotearoa á Nýja Sjálandi. Matthias var einnig með í fyrrasumar og sýnir stórhættuleg jafnvægisatriði. Hann tekur þátt í sýningum á Siglufirði og í Reykjavík í ágúst, bæði í fjölskyldusýningum og fullorðinssýningum.
Gay Pride-helgina verður sérstakur gestur á Skinnsemi – boylesquestjarnan The Luminous Pariah frá Seattle.
Þar að auki eru eins og áður sagði þrjátíu íslenskir sirkuslistamenn. Þrír þeirra, þau Eyrún Ævarsdóttir, Jóakim M Kvaran og Bjarni Árnason nema við sirkuslistaháskólann Codarts í Rotterdam og vinna hjá sirkusnum yfir sumartímann. Um tuttugu manns starfa við sirkusinn á veturna.
Nýjar græjur
Sirkusinn safnaði fyrir sumarferðalaginu á Karolinafund.com og gat nú keypt búnað til að auðvelda tjalduppsetningu og niðurtekt.
Fyrir þá peninga sem söfnuðust í ár gátu meðlimir keypt búnað sem styttir tíma tjalduppsetningar um nokkra klukkutíma og dregur úr slysahættu svo um munar.
Þau sem styrktu ferðalagið fá póst frá sirkusnum á mánudag til að ráðstafa miðakaupunum sínum.
Hér er miðasalan og nánari dagskrá Sirkus Íslands í sumar:
Goslokahátíð í Vestmannaeyjum 2- 5. júlí
Reykjavík, Klambratúni 9. – 12. júlí OG 7. – 23. ágúst
Húnavaka á Blönduósi 16. – 19. júlí
Franskir dagar á Fáskrúðsfirði 23. – 26. júlí
Síldarævintýrið á Siglufirði 30. júlí – 3. ágúst

Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.