Nemendur í 10. bekk Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi hafa undanfarna mánuði unnið hörðum höndum við uppsetningu leikritsins Aladdín undir leikstjórn Ragnheiðar Maísólar Sturludóttur.
Sú hefð hefur skapast á Seltjarnaresi að 10. bekkingar bjóða foreldrum sínum á ball þann 1. desember og er leikritið eitt af því sem þau bjóða uppá auk samkvæmisdansa og annara skemmtiatriða. Alls koma 38 nemendur að verkinu og hafa þau alfarið séð sjálf um alla umgjörð leikritsins. Þau búa til búninga og leikmynd, semja dansa, hanna ljós og hljóðmynd, stýra annari tækni auk þess að leika og syngja.
Fimmtudaginn 4. desember nk. ætla þessir duglegu krakkar að standa fyrir styrktarsýningu á leikritinu. Hópurinn hefur valið að styrkja Félag nýrnasjúkra en félagið safnar nú fyrir vatnshreinsitækjum sem eru nauðsynleg fyrir blóðskilunarvélar. Blóðskilun er mikilvæg meðferð við nýrnabilun á lokastigi.
Hópurinn valdi að styrkja Félag nýrnasjúkra því málefnið stendur þeim nærri. Móðir einnar stúlku í hópnum er nýrnasjúk og vilja þau leggja allt sem þau geta af mörkum til að félagið geti sinnt vel þeim sem þurfa á þjónustu að halda.
Styrktarsýningin verður haldin í Félagsheimili Seltjarnarness og hefst kl. 18:00 fimmtudaginn 4. desember. Aðgangseyrir er 1000.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.