Hvernig væri að prófa að nota verslunarmannahelgina í uppbyggilegan tíma í bongóblíðu í Laugalandi og koma með bestu samvisku í heimi í bæinn aftur?
Nokkrar vinkonur á ‘mömmuhelgi’ eða pabbar á ‘pabbahelgi’ gætu sannarlega líka tekið sig saman og skellt sér á Edrúhelgi þar sem skemmtunin verður með talsvert ólíku sniði en því sem tíðkast vanalega þessa villtu helgi.
Á fjölskylduhátíðinni kennir ýmissa grasa og þar fá andlega þenkjandi vissulega eitthvað fyrir sinn snúð.
Meðal annars eru spákonur á svæðinu, hægt verður að fara í jógatíma og hlusta á forvitnilega fyrirlestra um andans mál, allt frá núvitund og rajajóga yfir í geðsýki þeirra sem prýddu íslendingasögurnar.
Hinn geðþekki leikari Gunnar Eyjólfsson mun kynna Qi gong, Ingó töframaður verður á svæðinu og krakkarnir geta farið í sína eigin Idol keppni. Það verður sundlaugarpartý þar sem DJ Natalie leikur fyrir svamli, Ellen Guðmunds kennir krökkum að munda spreybrúsa á vegum Graffiti Reykjavík og svo verður hellingur af hljómsveitum sem spila um kvöldið.
Meðal þeirra má nefna Mannakorn, Prinspóló, Eyþórsdætur, Ylja (þjóðlagatríó) Legend (Krummi Björgvins), Kyriyma Family, DJ Natali og Terror Disco ásamt fleiri tónlistarmönnum og böndum.
Og ef þú elskar að borða þá áttu gott í vændum í Kjós því Ágúst Garðarsson og Gunnar Smári munu reka eldhús og veitingastað þar sem ódýr veislumatur verður í boði.
Morgunmatur á 500 kall, matarmikil edrúsúpa í hádeginu á 1000 kr og risa grill kvöldverður á 1500 kr. Ókeypis fyrir börn yngri en 6 ára og til 12 borga krakkarnir hálfvirði. Kaffitár verður á staðnum líka með eðal kaffi svo matgæðingar þurfa ekkert að óttast.
Verð á hátíðina með tjaldstæði og öllu er 4500 kr og gerist vart ódýrara, svo er spáin alveg dásamleg eins og sjá má á þessu korti svo þú getur þessvegna legið á teppi með sólarvörnina, meðan krakkarnir gera eitthvað skemmtilegt.
Til að vita meira um þessa skemmtilegu og fjölbreyttu dagskrá þarf bara að smella hér og auðvitað er hátíðin fyrir alla sem vilja skemmta sér án áfengis.
Smelltu HÉR til að lesa alla dagskránna og HÉR til að skoða tjaldsvæðið nánar!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.