Berglind Kristjánsdóttir er efnileg glerlistakona, býr í Vestmannaeyjum og var árið 2008 bæjarlistarmaður eyjunnar en með glerlistinni prentar hún einnig á boli fallegar myndir sem eru lýsandi fyrir eyjuna.
Berglind rekur vinnustofu og Gallerí í eigin húsnæði í Vestmannaeyjum og er sannarlega þess virði að kíkja inn til hennar og sjá bæði fallega muni, ljós, skartgripi og fleira sem hún hefur hannað og gert með sínum listamannsfingrum.
Ég stóðst ekki mátið að kaupa mér armband og eyrnalokka fyrir brúkaupið mitt sem verður eftir nokkra daga. Berglind gerir sérstaklega fallega skartgripi úr gleri og er hægt að fá hana til að sérhanna muni og sendir hún um allt land vörur ef viðskiptavinur óskar eftir því.
Þegar gengið er um bæinn og farið í heimahús er algengt að sjá falleg verk eftir Berglindi.Eitt af því sem ég var sérlega hrifin af voru ljós sem hún hannar upp á vegg en ljósin eru skreytt með allskonar fallegu mynstri.
Berglind hefur lært á ýmsum stöðum. Hún fór upphaflega í glerbræðslu í Glit árið 2004, lærði glermálun og glersteypun hjá dönskum hjónum, hún hefur farið til Danmerkur að læra og haldið margar einkasýningar meðal annars í Sæheimum náttúrugripasafni Vestmannaeyja.
Ef þú átt leið til Vestmannaeyja á næstunni eða langar að skoða verk eftir hana núna, þá er hún bæði með heimasíðuna bkgler.123.is og er hún einnig á fésbókinni.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.