Steampunk flokkast undir vísindaskáldskap. Það er eins og myndskreyting við ævintýrasögu eftir Jules Verne, framtíðardraumar 19.aldar með tækni nútímans.
Steampunk eða Gufu-pönk eins og það myndi kannski vera orðað á okkar ylhýra tungumáli getur einnig verið blanda af Hrylling, sögulegum skáldskap og annarsskonar sögum. Það má einnig lýsa Steampönki með slagorðinu “hvernig fortíðin hefði litið út ef framtíðin hefði gerst fyrr”
Orðið Steampunk kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1987 þó svo að heimildir segi að það hafi fyrir löngu orðið hluti af sögunni.
Ævintýraleg tíska
Tískan í kringum Steampunk er æðisleg og ávallt ævintýraleg. Fatnaður frá Viktoríu tímabilinu er mikið notaður eins og sjá má á myndunum hérna að neðan. Einnig eru þeir allhörðustu Steampönkara duglegir að búa til sinn eigin stíl og oft á tíðum má sjá afar fallegt skart, hatta, gleraugu og fleira sem þeir hafa búið til. En allt á að minna á gamla tíma en með nútímalegu ívafi.
Eini íslenski gufu-pönkarinn
Ég þekki bara einn Steampönkara á Íslandi og heitir hann Ingimar Oddson. Hann er afar smart týpa finnst mér. Fötin sem hann klæðist eru óaðfinnanleg og hefur hann einnig búið til fallega hluti og Steam-að upp gleraugu og hatta svo ég nefni nú eitthvað.
Ingimar sendi mér sína skilgreiningu á Steampönki og hana má lesa hér:
“Steampunk eða gufu-pönk er ekki bara einhver einsleitur stíll í tölvuleikjum og skáldskap. Gufu-pönk er heldur ekki bara fatastíll eða einhver búningafettís. Gufu-pönk er miklu meira en það, það er lífsstíll og lífsviðhorf. Þegar ég sá fyrst orðið Steampunk uppgötvaði ég að það var til orð yfir það sem heillað hefur mig í tugi ára.
Það var eins og að koma heim, í svona heimi vildi ég lifa. Þar sem klassísk fegurð og nútíma tækni haldast í hendur. Þar sem ævintýraljómi bókmennta og lista nítjándu aldar fær líf í möguleikum tæknialdar.
Sem listamaður leitast ég við að skapa þennan heim og í lífinu sjálfu lifi ég þennann draum, þetta ævintýri til fulls. Í gufu-pönki eru margir straumar og stílar og þó ég aðhyllist mest ímynd rómantíska eðalmennisins (Aristocrat/gaslight romance) þá eru tæki og tól gufu-pönksins ákaflega dulúðleg og heillandi líka.
Ég bý í litlu húsi frá 1917 þar sem hlaðinn skorsteinn prýðir eldhúsið, ég sit við gamla eldavél á köflóttum ullarslopp og vinn í logic pro 9 við að semja tónlist við ævintýraleiðangur á gufuknúnu loftskipi. Tölvan mín er svört iMac með gylltum ramma og alsett litlum tannhjólum og koparrörum. Ég er í tímavél á ferðalagi í tímaleysi. Aftur til framtíðar, áfram til fortíðar”.
Óaðfinnanlega klædd og hugsað út í hvert smáatriði
Karlmenn sem eru í Steampönki eru snyrtilega klæddir en oft með allskyns aukabúnað við fatnaðinn til að Steam-a upp klæðaburðinn og eins með kvenfólkið; gólfsíð pils og kjólar, korsilett og flottir skór ásamt skarti og fleiru.
Það má sjá Steampunk í eftirfarandi kvikmyndum:
- Wild Wild West
- Final Fantasy 7
- Van Helsing
- The Time Machine
- Hellboy
- og… Sky Captain And The World Of Tomorrow.
Ég held að það sé ekkert hægt að vera Steampönkari nema þú takir það alla leið. Annað verður bara ruglingslegt.
_________________________________________________________________________________
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.