Ingibjörg Ottósdóttir er fædd í Reykjavík og hefur búið þar og starfað alla tíð. Hún segist alla tíð hafa haft áhuga á öllu tengdu sköpun, hvort heldur sem er hönnun eða myndlist og sem barn var hún sífellt að teikna, prjóna eða sauma.
“Myndlistin átti samt alltaf stærstan sess í huga mínum. Árið 1990 sótti ég námskeið í módel og hlutateikningu hjá Myndlista-og handíðaskóla Íslands en áhuginn á olíumálun hófst svo fyrir alvöru fyrir um 10 árum síðan. Þá hóf ég nám í Myndlistaskóla Kópavogs og stundaði þar olíumálun og módelteikningu í mörg ár hjá frábærum kennurum. Meðal annars tók ég þátt í Master-class og Málstofu-listasögu hjá Bjarna Sigurbjörnssyni listmálara. Síðustu ár hef ég haft myndlistina að mínu aðalstarfi og haldið eina til tvær sýningar á ári. Einnig er ég aðili að rekstri ART67 á Laugavegi 67 og þar má finna nokkur verka minna”
Hvaðan sækir þú innblástur fyrir þín verk? “Myndefnið í verkin sæki ég til náttúrunnar. Birtunnar sem glæðir allt lífi með sínum töfrandi litatónum. Þessi hughrif gefa mér hugmyndir sem ég túlka á minn hátt. Vinnuferlið er oft mjög ósjálfrátt og eins og staður og stund taki völdin og sköpunargleðin verður allsráðandi”
Með hvaða efni ertu aðalega að vinna? “Flest verkin eru unnin með olíu á striga, en einnig hef ég unnið með blandaðri tækni. Ég notast bæði við pennsla, sköfur og ekki síst hendurnar, eða það sem gefur þá áferð sem ég vil fá fram”
Hvað finnst þér um íslenska hönnun í dag? “Ég fylgist nokkuð með íslenskri hönnun og finnst mikið til hennar koma. Hún hefur vaxið mikið síðustu ár og er bæði falleg og frumleg. Finnst mér hún orðin mjög frambærileg og sýnir hvað ungt fólk er dugmikið með kjark og þor”
Þitt uppáhalds verk? “Oftast er verkið sem ég vinn að hverju sinni uppáhalds verkið en sum verk eiga samt stærri sess í hjarta mínu en önnur”
www.artist.is er heimasíða Ingibjargar, hún er líka á Facebook og svo er hægt að hafa samband við hana í síma 6900397 en vinnustofan er í Auðbrekku 6 í Kópavogi. Eins er hægt að senda tölvupóst á ingibjorgott hjá hotmail.
Hér má sjá afar falleg verk eftir Ingibjörgu:
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.