Inga Lind Karlsdóttir fjölmiðlakona er flestum vel kunnug eftir fjölda ára á skjánum.
Við heyrðum í Ingu og fengum að forvitnast um hvaða snyrtivörur hún notar mest en þar kennir ýmissa grasa þó að Clinique og MAC séu í áberandi miklu uppáhaldi.
Hvað ertu að gera þessa dagana?
Ég hef nú bara verið að njóta þess að vera aftur í faðmi fjölskyldunnar eftir 10 vikna langa útlegð í tökum á Biggest Loser.
Hvað er í snyrtibuddunni þinni?
Þar kennir ýmissa grasa. Nýja uppáhaldið mitt er CC kremið frá Clinique og ég ber það á andlitið á hverjum morgni. Líka Laser Focus Serum frá Clinique. Þarna er líka MAC kinnalitur, burstar, augnháraplokkari, naglaþjöl, Naked augnskuggar, blýantur, handáburður (get alls ekki verið án hans), bleikur Blistex varasalvi (get heldur ekki verið án hans) og No Makeup Makeup boxið mitt frá Too Faced. Þar ofan í er alls konar sniðugt til að lappa upp á hitt og þetta í húðinni án þess að breyta andlitinu í málverk.
Hvernig hugsar þú um húðina?
Hér með viðurkennist að ég er eins og karlmaður þegar kemur að þessu og sofna allt of oft með meik og málningu á andlitinu. Ég veit að þetta er óafsakanlegt kæruleysi en sennilega eitthvað sem kemur til sökum þess að húðin á mér er frekar góð og þolir flest. Hitt er annað mál að ég hef verið að sjá að mér hvað þessi mál varðar og hef núna í haust verið dugleg að nota 3 step hreinsilínuna frá Clinique og auðvitað er húðin á mér strax miklu betri og mun hressilegri kona sem ég sé í speglinum á morgnana.
Ef þú mættir bara nota eina förðunarvöru, hver væri hún?
CC kremið frá Clinique. Engin spurning.
Uppáhalds dag og næturkrem?
Repairwear Uplifting frá Clinique er það sem ég set alltaf ofan á Laser Focus Serumið.
Notar þú augnkrem?
Eiginlega ekki. Ég juða bara dagkreminu yfir augum. En kannski er kominn tími á að fara að nota svoleiðis? Það er ekki eins og ég sé neitt að yngjast.
Ertu dugleg að nota förðunarbursta?
Já, og ég reyni að kaupa góða bursta, helst frá MAC, fer vel með þá og þvæ þá reglulega. Mér finnst það skipta máli.
Fegrunar-ráð í boði Ingu Lindar?
Mér finnst sólin alltaf gera góða hluti. Erfið húð verður alltaf betri ef sólin fær að skína aðeins á hana. Nú þarf ég vonandi ekki að taka fram að hér gildir hófsemi. Mikil sól getur verið beinlínis vond fyrir húðina en ef manni tekst að hafa upp á fáeinum geislum hér og þar þá er það hið besta mál. Svo finnst mér vatnsdrykkja breyta heilmiklu líka. Og gleði. Broshrukkur og spékoppar eru falleg fyrirbæri.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.