Hin hálf íslenska Indía Salvör Menuz vekur sífellt meiri eftirtekt í tísku og listaheiminum í New York sem víðar.
Indía er önnur tveggja dætra Jóhönnu Methúsalemsdóttur, sem flutti fyrir mörgum árum til New York og starfar þar sem skartgripahönnuður undir merkinu Kría.
Indía Salvör hefur vakið athygli bæði sem leikkona og fyrirsæta. Hún var meðal annars framan á síðustu plötu Pharell Williams og hefur setið fyrir í auglýsingum hjá bæði Chanel og Proenza Schouler, en Indía Salvör haslar sér líka völl á sviði kvikmynda og handritagerðar og er afbragðsgóður teiknari.
Okkur lék hugur á að fá að vita meira um þessa ungu og hæfileikaríku konu svo við spurðum hana aðeins úr nokkrum spjörum.
Finnst auðvelt að sofna á kvöldin eða ertu sífellt að hugsa um eitthvað?
Ég reyni að hugsa nóg yfir daginn svo ég geti látið mig dreyma eitthvað á nóttunni. Ég er frekar góð í að sofa.
Hvað er spennandi framundan?
Bráðum klára ég fyrstu myndina mína í fullri lengd sem ég skrifaði með mínum mjög sérstaka vini Maiko Endo. Við tókum myndina upp á Íslandi og Indlandi!
Næsta sumar tökum við upp aðra mynd, ég og tveir nánir vinir og svo mun ég bráðum frumsýna einskonar leikverk sem ég kalla „Velkominn heim Chibi Cherry.” Mér finnst líka kvöldmaturinn spennandi. Ég er alltaf spennt fyrir næstu máltíð sem ég borða. Haha…
Hefurðu séð álf, draug eða geimveru?
Ég sá álfa þegar ég var barn en núna finn ég bara fyrir nærveru þeirra sem sjást ekki og stundum sé ég fólk í kringum mig sem “post-human” með margskonar hætti, svona hér og þar.
Þekkirðu marga í sama stjörnumerkinu og hvaða merki er það?
Mamma, amma og ég erum allar í nautsmerkinu. Mér finnst ég mjög oft hitta fólk í nautinu.
Hver er stærsta fyrirmynd þín í lífinu?
Kannski kötturinn minn.
Hvernig finnst þér skemmtilegast að eyða tímanum?
Mér finnst eiginlega ekkert sem ég geri vera tímasóun. Fólki finnst ég kannski vera að sólunda tíma mínum en mér finnst það ekki.
5 hlutir sem þú myndir taka með í geimfarið?
Mat, köttinn, penna, pappír og símann minn.
Hvaða ferðamáti finnst þér bestur?
Reiðhjól
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=NWu9WjEcdbk[/youtube]
5 uppáhalds bíómyndirnar þínar?
- Kuichisan
- Holy motors
- Princess Mononoke
- Irreversible
- Pola X
Hefurðu einhverntíma verið ástfangin af einhverjum sem þú þekkir ekki neitt?
Það fer eftir því hvernig maður skilgreinir það að “þekkja einhvern” en nei, ég held ekki.
Hvaða mistök gerir fólk helst í samböndum sínum?
Að óttast hreinskilni.
Hvað er skemmtilegast við það sem þú ert að gera núna?
Akkúrat núna, sem ég skrifa þetta, þá er kötturinn minn Peony í kjöltu mér malandi og ég get klappað henni í framan á meðan ég reyni að hugsa eins lítið og ég get um svörin við þessum spurningum. Haha.
Erfiðast?
Mér leiðast tölvur.
Hvaða veitingastað í borginni mælirðu með?
Dimes í NY, Cafe Haiti í Reykjavik
Manstu eftir einhverju vandræðalegu sem gerðist fyrir þig á gelgjuskeiðinu?
Of mörgu. En eins og Lee Bowery sagði eitt sinn: „Embarrassment is the unexplored emotion.” … þannig að ég segi bara no regrets haha.
Hvernig viltu vera sem gömul kona?
Hugsandi, hlý og heilbrigð.
Hvað ertu að fara að gera á eftir?
Ég ætla að undirbúa mig fyrir prufu sem ég fer í á morgun, leika við litla bróður minn, vinna í keramik og hitta vini sem eru með pop-up búð og kíkja svo á aðra vini sem voru að opna kaffihús.
Smelltu hér til að skoða heimasíðu Indíu Salvarar, sjá nokkrar teikningar eftir hana og fleiri verk.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.