Á tískuvikunni í New York hélt Tom Ford tískusýningu þar sem ekki voru leyfðar myndavélar né var sýningin send út beint líkt og aðrir hönnuðir gera fyrir almenning.
100 boðsgestir (allir frægir og ofurríkir) urðu að halda upplýsingum um þann fatnað sem bar fyrir augu þeirra algerlega fyrir sig. Ástæðan fyrir öllu þessu leynimakki var að halda lágvöru-fataverslunum frá því að kópera og selja eftirlíkingar af vorlínu Tom Ford áður en hún færi í sölu en eins og flestir vita þá eru eftirlíkingar algengar og í raun ógerlegt að stöðva þann bisness.
Loksins, loksins, loksins… er meistari Tom Ford aftur farin að hanna kvenfatnað en ég varð þess heiðurs aðnjótandi að hitta hann nokkrum sinnum þegar ég starfaði fyrir GUCCI í London á árabilinu 1997-2001. Ég var alltaf beðin um af ‘press office’ að taka til fyrir Tom Ford; tvær skjannahvítar skyrtur, pakka þeim í fallega gjafaöskju og senda honum. Þetta var ég sérstaklega beðin um því ég gerði það víst að hans GUCCI staðli -Já það er ekki sama hvernig gengið var frá vörunum 😉
Tom Ford var þá hönnunarstjóri en hann kom með nútímann, löðrandi kynþokka, glysið og glamúrinn með sér til GUCCI og auðvitað í hönnun sína. Hann fékk ljósmyndarann Mario Testino og franska stílistann Carine Roitfeld (sem var að segja upp störfum hjá franska Vogue tímaritinu) og saman gerðu þau töff og oft á tíðum sjokkerandi auglýsingamyndir sem alltaf slógu í gegn.
Tom Ford starfaði fyrir GUCCI og YSL 1994- 2004. Ég veit ekki með þig en ég er búin að sakna hans úr fatabransanum enda hefur kventískan ekki verið söm eftir að hann sleppti skærununm. Ekki eins ögrandi og töff.
Ég segi því bara Velkomin heim Tom Ford:
Hér er svo myndband af sýningunni:
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.