Stelpur á aldrinum 10-12 ára kallast á ensku “Tweens” en það stendur fyrir Inbetween og þýðir að einstaklingurinn sé mitt á milli þess að vera krakki og unglingur, eða tween.
Þessi Tween krútt hafa gaman af öllu sem unglingar hafa gaman af, dýrka unglingamenningu og geta eiginlega ekki beðið þess að verða sextán en ætli strákarnir í One Direction hafi ekki einmitt verið svo gamlir þegar þeir komu fyrst fram á sjónarsviðið.
Helstu aðdáendur þeirra eru hinsvegar frá átta til þrettán ára og það er einmitt markhópurinn fyrir One Direction ilmvatnið OUR MOMENT sem kom á markað nú í haust. Bleikt, í bleikum kassa, með myndum af hljómsveitarmeðlimum og síðast en ekki síst… eiginhandaráritunum!
Dóttir mín fékk glas af þessu fíneríi í haust sem hvatningarverðlaun fyrir herbergistiltektir og ástundun á heimanám. Það var stór dagur þegar hún úðaði ilminum á sig í ótæpilegu magni enda fátt meira spennandi en að eiga sínar eigin snyrtivörur þegar þú ert 9 ára skvís.
Ilmurinn er léttur með blóma og ávaxtakeim, ferskur, bjartur og alls ekki einkennilegur á lítilli tween týpu. Ekki eins og hún hafi verið að úða sig með Chanel 5 eða öðrum kvenlegum ilmi, frekar eins og hún hafi sofnað í blómabeði eða ávaxtakörfu.
Ilmurinn mýkist jafnframt fljótt upp og verður mildur eftir að honum er úðað á. Glasið er mjög stelpulegt, í kristalsformi með kórónu og tjulli á toppnum. Mjög sætt og auðvitað haft upp á punt í herberginu.
Þetta fínerí seldist fljótlega upp eftir að það var sett á markað í haust en nýjar sendingar hafa skilað sér inn fyrir jól svo ef þig langar að sjá lítinn One Direction aðdáanda hoppa hæð sína af gleði á aðfangadagskvöld þá er þessi ilmur frábær hugmynd í gjafapakkann.
Hér má svo sjá þessa vel greiddu sprelligosa í auglýsingu á ilminum fyrir Macy’s.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=YOnx-_nopnk[/youtube]
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.