Ilmir eru konum sértstaklega huglægir enda er lyktarskynið okkur mjög mikilvægt og spilar meira segja mikið inn í í val okkar á maka samkvæmt rannsóknum.
Ég er ein af þeim sem tengi lykt við minningar og á mér tímabil í lífinu sem ég tengi við ilmina sem ég, og fólkið í kringum mig, notaði á þeim tímapunkti.
Ilmvatnsaga mín byrjar við fermingu en þá fékk ég ferð til Flórída í fermingargjöf og þar keypti ég mér fyrsta ilmvatnið sem var Sunflower frá Elizabeth Arden. Ég var með sólblómaæði og skreytti herbergi mitt með sólblómum og plakötum með sólblómamyndum Van Gogh. Því var ilmurinn eins og himnasending.
Önnur ilmvötn sem senda mig í „flashback“ eru:
L´eau D´Issey-Issey Miyake -sérstök, fersk og sterk blómaangan sem minnir mig á 16-17 ára aldurinn sem ég eyddi í Mílanó, Vín og Munchen og lærði að standa á eigin fótum.
Cool Water og CK One minnir á menntaskólaböll og London.
Angel- Thierry Mugler, flott stjörnulaga glas með sætri angan af kanil og ávöxtum. Minnir mig á fyrstu ástina og ógleði sem fylgdi meðgöngu minni og get alls ekki notað þennan ilm í dag.
Cashmere Mist- Donna Karan sæt og ljúf angan, klassísk og mild lykt. Við besta vinkona mín höfum mikið notað þetta gegnum árin og mér finnst hún alltaf góð og minnir mig á vinskap okkar.
Romance- Ralph Lauren ferskur blómailmur sem getur verið soldið sterkur. Minnir mig á fyrstu skref mín sem móðir.
Pacific Paradise- Escada fersk, sexí og sumarleg angan sem minnir mig á sumarið sem ég kynntist kærastanum mínum.
Eftir að ég kynntist sumarilmunum frá Escada þá hef ég verið alveg vitlaus í þá og átt alla sumarilmi sem á eftir hafa komið, Sunset Heat og Moon Sparkle og nú er nýjasta afurðin Ocean Lounge sem ég að sjálfsögðu er búin að eignast líka.
Versta við þessa ilmi er að þeir eru „limited edition“ og ég hef staðið í þvílíku veseni að reyna eignast sumarilmi sem ekki lengur eru framleiddir, leitað í óteljandi snuyrtivörubúðum erlendis og hringt í umboðið til að hafa uppá seinustu glösunum á landinu en það er kannski bara „partur af programmet“?
…að hafa svolítið fyrir því að fá það fallega sem hugurinn -og lyktarskinið, girnist…
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.