IÐRUN eftir danska rithöfundinn Hanne-Vibeke Holst er klárlega páskalesningin í ár hjá unnendum spennu- og kynslóðasagna.
Hér er á ferðinni saga fjögurra kynslóða Tholstrup-ættarinnar sem spannar sjötíu ár og er mjög viðburðarík. Frásögnin hefst við upphaf seinni heimstyrjaldarinnar þegar Þjóðverjar hernema Danmörku og Thorvald, ættfaðirinn og prestur, gengur til liðs við andspyrnuhreyfinguna. Sérann yfirgefur fjölskylduna til að fara huldu höfði því hann hefur vakið mikla heift Þjóðverja með stóryrtum og opinskáum ræðum yfir hjörð sinni. Þessi ákvörðun Thorvalds hefur ákveðnar afleiðingar í för með sér sem verða að vel varðveittu leyndamáli sem kemst ekki upp fyrr en löngu síðar. Veikleiki holdsins reynist ná út fyrir hempu prestsins …
Annar tvíburasonur Thorvalds kemst á snoðir um sannleikann úr fortíð föður síns og getur ekki fyrirgefið blekkinguna sem átti sér stað í lífi fjölskyldunnar. Svo kaldhæðnislegt sem það nú er á sonurinn eftir að lenda í mjög svipuðum aðstæðum sjálfur og þá er spurningin, hvernig hann leysir það?
ÁTÖK, LEYNDARMÁL OG BLEKKINGAR
Á sama tíma kynnist lesandinn Helenu Tholstrup, dóttur tvíburans en þá er árið 2011. Hún er listrænn stjórnandi óperunnar í Berlín, farsæl í starfi, klæðist rándýrum merkjafatnaði og býr mjög huggulega. Hún er sjálfstæð og metnaðarfull kona sem á í fremur fjarlægu sambandi við dóttur sína, Sophie. Hún er á leiðinni til Berlínar í heimsókn til móður sinnar með nýja kærastann í för; hinn arabíska Khalid. Tilefnið er það að heiðra á Helenu í óperunni.
Smám saman kemur erfitt og óþægilegt leyndarmál upp á yfirborðið, nokkuð sem Helena hefur ekki sagt frá … Þann örlagaríka dag verður hún tilneydd til þess að horfast í augu við sannleikann úr fortíðinni.
Átök, leyndarmál og blekkingar lita líf sögupersónanna og höfundi tekst lystilega vel að halda athygli lesandans óskiptri. Halldóra Jónsdóttir þýddi bókina úr dönsku og Vaka-Helgafell gefur hana út. Höfundurinn, Hanne – Vibeke Holst, er menntaður blaðamaður sem hefur gefið út fjölmargar bækur og starfaði m.a. á Berlingske Tidende.
Hún skrifar einkum bækur um nútímakonur sem lenda í klassískum krísum. Eitthvað sem ætti að höfða sterklega til lesendahópsins á Pjattinu.
Hrund Hauksdóttir er blaðamaður, hljóðbókalesari, nautnaseggur og pjattrófa. Hún stundaði háskólanám í fjölmiðlun í Bandaríkjunum og félagsfræði við HÍ. Hrund ritstýrði Vikunni frá 2000-2002 og var eins konar partípenni sunndagsútgáfu Morgunblaðsins 2006-2009, þar sem hún skrifaði undir heitinu Flugan en undanfarin 6 ár hefur Hrund skrifað kynningarefni fyrir Frjálsa Verslun.
Nýjasta Pjattrófan er miðbæjarmaddama sem les bækur af ástríðu, stundum nokkrar í einu, enda er hún í tvíburamerkinu og skiptir hratt og auðveldlega um skoðun.