Hin danskættaða Nadia Lavard er sjálflærður ljósmyndari sem tekur krassandi myndir. Nadia byrjaði að munda vélina aðeins fimm ára gömul og það á Fisher Price leikfangavélina sína. Viðfangsefnin þá voru helst bangsar sem hún raðaði upp í einfalda röð.
Um sautján ára aldurinn fékk hún fyrstu stafrænu vélina sína og þá varð ekki aftur snúið. Í gegnum linsuna sá hún heiminn í öðru og nýrra ljósi og heillaðist algerlega af þessum miðli. Nadia er væntanleg til landsins og af því tilefni tókum við hana tali.
Af hverju hefurðu áhuga á ljósmyndun?
Í upphafi vildi ég mynda það sem er fullkomið en í seinni tíð hef ég laðast meira að raunveruleikanum og því sem er ófullkomið. Ég vil mynda það sem ég sé, en einnig það sem er hulið okkur. Ég vil segja sögu þess sem ég mynda, ein mynd segir meira en þúsund orð.
Þú ert sjálflærður ljósmyndari, hvernig fikraðirðu þig áfram?
Ég er forvitin og hafði áhuga á ljósmyndun. Þegar ég var að byrja vildi ég ólm læra sem mest. Ég lá í bókum, skoðaði fræðsluefni á netinu en það sem mestu máli skiptir var að ég var alltaf að mynda. Þannig dýpkaði ég skilning minn á ljósmyndun og lærði alltaf meira.
Hvernig vinnurðu með ljós og skugga?
Ég reyni að nota þá birtu sem er til staðar hverju sinni og sleppi rafmagnsljósum alveg. Að mínu mati gefur náttúruleg birta myndunum meiri kraft, þú horfir á myndina og hún hreyfir við þér.
Heldurðu meira upp á svarthvítar myndir heldur en litmyndir?
Ég nota bæði formin. Ég hef alltaf verið hrifin af litmyndum, þær eru fullar af lífi og raunverulegar. Svarthvítar myndir finnast mér aftur á móti listrænar og fallegar. Svarthvít mynd getur framkallað svo djúpstæð áhrif að hún hittir þig beint í magann þegar þú horfir á hana.
Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Ég veit ekki hvaða stíl ég hef en oft segist fólk þekkja handbragð mitt og greinir það frá öðrum ljósmyndurum. Ég tek myndir eftir líðan minni, alveg eins og listmálari sem dregur pensilinn eftir striganum til að tjá sig. Samt er ég alltaf að leita að fegurðinni í öllu og öllum. Þeir sem koma ekki auga á hana sjálfir neyðast til að horfa á hana í myndunum mínum. Ef einhver hatar á sér nefið af því að það er of stórt, beini ég athyglinni einmitt að nefinu á myndinni til að sýna hversu fallegt það er. Ég veit ekki hvaða stíl ég hef en oft segist fólk þekkja handbragð mitt og greinir það frá öðrum ljósmyndurum.
Hvað er skemmtilegast að mynda?
Fólk. Manneskjan og mannslíkamninn eru algerlega ómótstæðileg viðfangsefni.
Hvernig dregurðu karakter manneskjunnar fram á myndinni?
Eins og ég sagði áður einbeiti ég mér að persónueinkennum hennar. Allir eru sérstakir en oftast er okkur illa við það sem gerir okkur sérstök. Þetta snýst um að horfa á manneskjuna, reyna að skilja hana um leið og þú tekur af henni mynd. Þannig verða mínar myndir til.
Hafa myndirnar þínar birst í fjölmiðlum ?
Já, reyndar. Ein af fyrstu stafrænum myndunum mínum var notuð á bókarkápu. Þá hafa myndirnar birtst í tískutímaritum á netinu, utan á geisladisk og ég hef haldið sýningu. Nýlega birtust svo þrjár mynda minna HÉR.
Þú ert væntanleg til Íslands í júlí, hvert er planið?
Ég kem seint í júlímánuði og verð fram til enda ágústmánaðar. Ég ætla að taka myndir og vonandi kynnist ég fólki á sem er að spá í sömu hluti; módelum, förðunarfærðingum og listafólki.
Ef einhver les þetta viðtal og hefur áhuga á að hitta mig er einfaldast að senda mér tölvupóst á nadialavard@gmail.com
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.