Er þetta ekki allt notað; með svitablettum og subbulegheitum? Kemur þetta úr dánarbúi? Af hverju er svona skrýtin lykt hérna?
Á unglingsárum mínum vann ég í verslun sem selur notuð föt, eða second-hand fatnað eins og kempurnar kalla það. Þar eru til sölu já; gömul föt.
Stundum koma þau frá einstaklingum en mikið eru gamlir lagerar sem hafa verið keyptir upp, svo í raun koma vörurnar úr öllum áttum. Af þessari atvinnu minni uppskar ég ekki mikla fjármuni og eyddi mest öllum launum innanhúss.
Með reynsluna sem ég fékk í þessari vinnu ásamt því að eiga sjaldan mikla peninga þróaði ég með mér tækni við að leita af gersemum í mishuggulegum second-hand búðum út um allan heim. Ég ætla byrja á því að vera hreinskilin. Yfirleitt eru subbulegustu, skrýtnustu búðirnar með verstu lyktinni langbestar. Því meiri fúkka-lykt því betra. Þú þarft bara að taka spari-umburðarlyndið og góða skapið með.
Hér eru mín helstu leynivopn.
Svæðið skannað
Það sem tekur við, ef þú hefur hætt þér inn, er að skanna svæðið.Þá renniru í gegnum rekkana (sem oft eru drekkhlaðnir af stuttermabolum frá Pollamótinu ’94) og reyna í fljótu bragði að spotta eitthvað gotterí.
Litir
Þú þarft fyrst og fremst að leita að þeim litum sem þú gengur í, ekki eyða tímanum í að hlæja af 90′ galladragt sem þér finnst fáránlega ljót. Þetta er mission! Persónulega eru mínir litir bleikur, svartur og grár. Þá stoppa ég einungis þar sem ég sé eitthvað af þessu litum. Þá ertu nú þegar búin að útiloka 80% af fataflóðinu.
Efni
Því næst þarftu að ákveða hvernig efni þú kannt vel við. Er það silki? Þoliru illa ull? Ertu bómullar-kona? Ok, þá ferðu yfir litina þína út frá efninu. Þá fyrst byrjaru að tosa út það sem kemur til greina. Svo er það bara að skoða betur flíkina, er hún í þinni stærð og líst þér vel? Ef ekki, þá bara henda henni aftur á rekkann. Ekkert væl um að það sé ekki til í þinni stærð. Þín bíður eitthvað betra
Blettavinafélagið
Svo er það bara að máta og skoða blettastöðuna. Sem formaður blettavinafélagsins þá er ég ansi góð í þekkja slæma bletti og léttvæga bletti. Oft er líka gott að kíkja á þvottaleiðbeiningarnar inni í flíkinni, sem er á flestum. Ef það er t.d dökkblár blettur í ljósbleikri silkiblússu þá er þetta vonlaus ættleiðing. Ef handakrikarnir virðast vera örlítið upplitaðir eða jafnvel smá gulleitir þá skaltu vera á varðbergi. Þetta eru svilla-blettir og lyktina er óbærileg þegar þér verður heitt. Sleppum því bara alveg.
Áður en þú fjárfestir
Skoðaðu flíkina og athuga hvort hún sé ekki í góðu ástandi. Gott er að hafa í huga við til dæmis pelsa að þeir fara út hárum með árunum. Ef þú rennur höndunum yfir skinnið og þú hefur hárbolta sem jafngildir kettling þá er pelsinn á seinustu metrunum. Ef ekki þá skaltu skella þér á hann, second-hand pelsar eru hræódýrir miða við nýja.
Léttar viðgerðir á faldinum eða að festa betur tölur ætti hver sem er að geta reddað en einnig eru saumastofur frábærar í að lappa upp á flíkur ef maður treystir sér ekki í nál og tvinna-vinnu (undirskrifuð gæti ekki stoppað í sokka þó sjálfstæði Íslands lægi við). Mundu bara að viðgerðir á öllu úr leðri og rúskinni geta verið dýrar svo vertu viss um að það sé þess virði.
Við heimkomu
Þegar heim kemur skaltu alltaf þvo flíkina, eftir leiðbeiningum, eða viðra hana dugleg. Á internetinu er margt til og meðal annars allskonar þvottapælingar sem gætu komið að góðum notum.
Fagmennska í second-hand leit
Ég hvet ykkur til að prufa, það er svo gaman að detta niður á eitthvað magnað og um leið eignastu flík sem ekki hangir í öllum búðargluggum og á tískubloggum. Þú skapar þér persónulegan stíl, fyrir minni pening og svo muntu hlæja þig vitlausa af öllum þessum axlapúðunum og legghlífum með blikkandi jólasveinum. Stórskemmtilegt!
Mín uppáhaldsverslun er Hjálpræðisherinn í Garðastrætinu.
Þar eru yndislegar konur sem standa vaktina og búðin ávallt full af flottheitum. Þaðan hef ég gengið út með margar af mínum uppáhalds flíkum, sumar fínar merkjavörur og annað bara eitthvað ókunnugt en fallegt er það þó.
Góða skemmtun og munið að tískan fer í hringi! (Ein sem á nóg til að velja úr þegar krumpugallarnir koma aftur, heppin ég..)
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.