Borgarstjórnin í Reykjavík hefur hækkað verðið í sund. Einn miði fyrir fullorðinn á að kosta 900 kr og breytingin tekur gildi 1. nóvember.
Mér finnst mjög gott hjá borginni að hækka gjaldið en aðferðin hefði mátt vera betur hugsuð.
Að mínu mati ætti einn miði ofan í laugina að kosta talsvert meira. Til dæmis 2500 krónur, en árskort gæti kostað sirka 10.000 – 15.000. Á árskortinu ætti að vera mynd af eigandanum svo hann gæti ekki notað klippikort til að bjóða öllum vinum sínum með.
Semsagt, árskortið myndi gilda fyrir eina manneskju, bara svona eins og strætókort.
Heilu rúturnar ofan í fyrir slikk
Af hverju finnst mér þetta? Jú, ég veit til þess að fararstjórar rúlli með heilu rúturnar af ferðamönnum í laugarnar. Það eru keypt eitt eða tvö klippikort og svo er klippt ofan í fyrir allann hópinn. Fyrir einn kostar þetta þá smotterí en auðvitað rukkar fararstjórinn mikið meira þegar hann selur túristanum pakkaferðina.
Ferðamenn borga hér ekki aur í skatta og fararstjórar reyna auðvitað að græða sem mest. En á kostnað hverra? Borgarbúa? *innsog* Er ekki nóg á okkur lagt ?
Það tíðkast á eftirsóttum stöðum um allan heim að heimamenn borgi minna fyrir sumt en aðkomufólk og með þessari svakalegu fjölgun ferðamanna þurfum við frónbúar að bretta upp ermar, endurskoða margt.
Það er bæði skynsamlegt og réttlátt að það sé sett upp kerfi sem gerir heimamönnum kleyft að stunda þessa heilsueflingu mjög ódýrt en um leið sjá til þess að viðhald og þjónusta við laugarnar sé til fyrirmyndar.
Pottarnir eru okkar pöbbar
Það er ekkert að því að borgin afli sér tekna með því að hækka gjaldið, nógu er hún nú skuldug. Það ætti hinsvegar ekki vera á kostnað borgarbúa sem hafa þegar mátt súpa seyðið af kjánalegum aðgerðum OR – og annars klúðurs hjá borginni.
Sund skiptir Íslendinga svakalega miklu máli. Þá sérstaklega eldri kynslóðirnar sem hittast í pottunum á morgnanna líkt og ítölsk gamalmenni hittast á kaffihúsunum og bretar á pöbbunum sínum. Gamalmennin eiga síst mikið af peningum og sundið er bæði heilsueflandi andlega og líkamlega. Fyrir þau, fyrir börnin okkar og bara fyrir okkur öll!
Á opinberum vef Evrópusambandsins fann ég klausu um réttlætingu þess að ferðamenn borgi meira fyrir þjónustu en heimamenn. Svo skemmtilega vill til að þar er dæmið um sundlaugar er einmitt tekið!!
Sometimes differences in price can be justified
Bart, from the Netherlands, visits his friend in Germany and goes to a swimming pool. He is charged a higher price than local residents, and wonders if this is unlawful price discrimination.
In this case, the price difference is justified. As the swimming pool is run by the local authority and financed by local taxes, local residents have already contributed to the running of the pool and therefore enjoy a lower entry price.
Áhugasamir geta smellt HÉR til að lesa meira. Við erum reyndar ekki í Evrópusambandinu en þetta eru fínustu rök og gott dæmi. Góður útgangspunktur sem nauðsynlega þyrfti að færa yfir á þjóðgarðana og annað sem ferðamenn nota en heimamenn borga fyrir.
Þórgnýr Thoroddsen, formaður ÍTR, endilega breyttu sundkortunum! Ekki láta misnota þessi klippikort. Græðum meira, af því við megum það og getum það. Það er alveg hægt að gera eitthvað gáfulegt fyrir peninginn.
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=oZcdEWuLNzM[/youtube]
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.