Í Laugarásbíó er verið að sýna teiknimyndina Hótel Transylvanía en myndin fjallar um Drakúla sem rekur 5 stjörnu “skrímslahótel” langt í burtu frá mannabyggðum í Transylvaníu.
Í þessari bíómynd er hlutverkum manna og skrímsla snúið á hvolf: Hér eru það Drakúla, vampírur, skrímsli, múmíur, “ósýnilegi maðurinn” og önnur furðudýr sem eru hrædd við mannfólkið.
Drakúla á dótturina Mavis sem fagnar 118 ára afmæli sínu, sem sagt er ljúfan litla að komast í “fullorðinna-Vampíratölu”! Það eru þessi tímamót sem Drakúla óttast mjög og hann á erfitt með að sleppa takinu á dóttur sinni sem nú getur ákveðið sjálf hvað hún vill gera. Ævintýrið hefst þó ekki almenninlega fyrr en Jónatan – ungur, afslappaður ferðalangur villist inn á hótelið. . .
Ég var í góðum félagsskap á myndinni, þetta var svona stelpuferð og við skemmtum okkur allar vel. Sér í lagi þessar yngri.
Myndin hentar ábyggilega breiðum aldurshóp, ég held að krakkar á aldrinum 7 – 15 ára eigi eftir að hafa virkilega gaman af myndinni.
Fullorðna fólkinu finnst myndin kannki pínulítið langdregin á köflum (og þessum kröfuhörðustu foreldrum finnst kannski að söguþráðurinn mætti vera ríkari) en það er samt sem áður gaman af myndinni og hún er mjög vel gerð í alla staði (svo fólk ætti að fá eitthvað fyrir sinn snúð).
Það er Adam Sandler sem fer með hlutverk Drakúla og fleiri reyndir gamanleikarar ljá persónunum raddir sínar. T.d. er það gamanleikarinn Andy Samberg sem leikur Jónatan, Selena Gomez leikur Mavis, Kevin James (úr King of Queens) leikur Frankenstein og Steve Buscemi leikur Wayne – svo einhverjir séu nefndir.
Ég er ekki frá því að þetta sé svolítil “stelpumynd” vegna söguþráðarins, en húmorinn og öll flottu skrímslin bæta strákunum það ábyggilega upp. Ég mæli með því að fjölskyldan skelli sér saman á Hótel Transylvaníu í Laugarásbíó, það sér enginn eftir því!!
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.