Leonardo DiCaprio og Martin Scorsese hafa sannað það að þeir eru nokkuð örugg blanda en þeir hafa unnið saman að stórmyndum eins og Shutter Island, The Departed og The Aviator.
Svo þegar ég sá að von væri á enn annarri myndinni með þeim félögum þurfti ég ekki einu sinni að horfa á trailerinn fyrir myndina áður en ég var búin að ákveða að ég þyrfti að fara í bíó á The Wolf of Wall Street.
Myndin er sannsöguleg og fjallar um hinn unga og efnilega Jordan Belfort sem er að stíga sín fyrstu skref á Wall Street þegar markaðurinn hrundi á 9. áratugnum. Í framhaldi að því stofnar Jordan sitt eigið verðbréfafyrirtæki sem vex hratt en hagnaður fyrirtækisins byggist að mestu leyti á því að svíkja pening út úr fólki með frábærum söluhæfileikum.
Leonardo DiCaprio sýnir frábæra frammistöðu í hlutverki Jordans og hefur fengið Golden Globe tilnefningu fyrir leik sinn í myndinni. En auk hans leika í myndinni Jonah Hill, Matthew McConaughey, Rob Reiner og fleiri flottir leikarar.
Sagan sjálf er svo sjokkerandi að ég stóð sjálfa mig að því að hlæja taugaveiklunarhlátri að fáranleikanum í henni oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.
Og það er margoft sem maður hreinlega varla trúir því að sagt sé rétt frá. Lifnaðurinn á Jordan og vinum hans frá þessum tíma er hreinlega lygilegur og maður trúir því varla að heilt fyrirtæki hafi verið rekið á þann hátt sem maður sér í myndinni, eða eins og hann lýsir því:
“Það voru hórur í kjallaranum, dópsalar á bílaplaninu, framandi dýr í stjórnarherberginu og dvergakast á föstudögum”.
Á endanum varð ástandið það svæsið að banna þurfti stundun kynlífs á skrifstofunni á milli 9-17 á virkum dögum.
Myndin hefur fengið einhverja gagnrýni fyrir það að upphefja lífstíl manna eins og Jordans og upphefja hugsanahátt þeirra sem snýst að stóru leyti um það að þeim er alveg sama hvað þeir þurfa að gera fyrir peninga, stela, svíkja og ljúga, þeir gera það allt.
Jordan segir sjálfur í myndinni að hann myndi alltaf velja það að vera ríkur fram yfir það að vera fátækur, eftir að hafa séð þessa mynd verð ég að segja að auðvitað (eins og allir) væri ég alltaf til í að vera rík, en ég myndi kjósa að vera fátæk 100 sinnum áður en ég myndi velja líf Jordans Belfort og þá meina ég lífið sem hann átti áður en hann fór í fangelsi.
Siðleysi hans og félaga hans er algert og þrátt fyrir það að ég skilji gagnrýnina á myndina ætla ég að treysta því að flestir sem sjá myndina sjái það að lífstíll Jordans er ekkert sem er eftirsóknarvert. Þó að dást megi að hæfileikum hans og snilli sem sölumanns sem koma oft fram í myndinni, þá vona ég að sem allra flestir sjái að leiðirnar sem hann fer til að nýta sér þessa hæfileika eru svo siðlausar að það er leitin að öðru eins.
Þeir sem hafa áhyggjur af því að ágóðinn af myndinni fari beint í vasa þessa svikahrapps þá hefur hinn raunverulegi Jordan skrifað undir skjal þess efnis að allur ágóðinn sem færi til hans af myndinni muni fara til þeirra fjölskyldna sem hann var dæmdur til að borga bætur eftir að hafa svikið út úr þeim háar fjárhæðir.
The Wolf of Wall Street er líklega ekki fyrir þá allra viðkvæmustu enda sést í henni mikil nekt og eiturlyfjanotkun og annað af þeim toga. En ef þú ert í stuði fyrir frábæra mynd sem sjokkerar aftur og aftur, er mjög fyndin á köflum (þó oftast sé um taugaveiklunarhlátur að ræða þar sem maður ákveður að hlæja í staðin fyrir að gráta yfir aðstæðunum), er frábærlega vel unnin og leikin og fær þig til að hugsa smá þá mæli ég svo sannarlega með henni!
Og þó árið hafi bara rétt verið að byrja þá held ég að það sé nokkuð öruggt að segja að The Wolf of Wall Street sé ein af betri myndum ársins!
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=iszwuX1AK6A[/youtube]Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.