Það fór líklega ekki framhjá einum einasta Íslendingi þegar Ben Stiller var staddur hér á landi í fyrra við tökur á nýjustu mynd sinni, The Secret Life of Walter Mitty og vilja eflaust sjá myndina bara til að sjá Ísland.
Það ætti því að gleðja marga að Ísland sést oft og vel í myndinni og er jafnvel í öðru aðalhlutverki á móti Ben.
En myndin býr samt yfir mun fleiri eiginleikum en bara Íslandi sem drógu mig upphaflega að henni. Kristen Wiig (Bridesmaids, SNL), önnur uppáhalds grín-leikkonan mín, leikur líka í henni (Tina Fey mun alltaf vera númer eitt) og svo er myndin líka alveg svakalega “krúttuð” og krúttlegar myndir eru í alveg sérstöku uppáhaldi hjá mér. Einnig er gert mikið út á allt sjónrænt í og tónlistin er mjög góð og passar vel við stemminguna, eins og sést vel í trailernum hér að neðan sem er með lagi með Of Monsters and Men (meira íslenskt, vei!). Þetta allt gerði það að verkum að ég var eigilega fallin fyrir myndinni áður en ég sá hana!
The Secret Life of Walter Mitty er endurgerð af samnefndri mynd frá árinu 1947 sem var gerð eftir smásögu eftir James Thurber.
Hún fjallar um Walter sem starfar í ljósmyndadeild tímaritsins LIFE og er mikill sveimhugi. Hann er skotinn í samstarfskonu sinni sem hann þekkir ekki en hann skáldar reglulega upp aðstæður þar sem hann nær að heilla hana með einhverjum hætti.
Eftir miklar umbreytingar hjá LIFE kemst hann í atburðarrás sem gerir það að verkum að hann ferðast til Íslands, Grænlands og Afganistan í leit að ljósmyndara sem starfar í lausamennsku hjá LIFE.
Kvikmyndin stóðst væntingar mínar að öllu leyti. Hún var falleg og skemmtileg og það var ótrúlega gaman að fylgjast með landinu sínu, en Ísland er í hlutverki Grænlands og Afganistan auk þess að “leika” sjálft sig líka. Það eina sem truflaði mig var uppgötvun mín á því að landafræðiþekking mín er engan vegin eins góð og ég hef talið mér í trú um hingað til og ég átti í fullu fangi með að reyna að koma því fyrir mig hvar á landinu Walter væri staddur hverju sinni.
Það hjálpaði svo ekki að myndin umturnar íslenska landakortinu nokkuð duglega! Það var líka einstaklega gaman að heyra loksins “alvöru” íslensku í Hollywood mynd, en oft áður hefur bara verið talað eitthvað bullmál eða annað tungumál þegar einhver karakter í bíómynd á að vera frá Íslandi. Myndin hefur fengið nokkuð blendna dóma og að vissu leyti er hægt að skilja það þar sem stemmingin í myndinni fylgir að mestu leyti skapi Walters sem virðist sjaldan breytast.
Út af þessu getur myndin virst vera bara eins og bein lína með fáar hæðir og lægðir, en það er þó oft hægt að lesa tilfinningasveiflur Walters út úr landslaginu í kringum hann. Augljósasta dæmið er líklega þegar hann fréttir að hann þurfi að fara heim frá Íslandi en á sama tíma verður aurskriða í Hafnarfjalli.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=kGWO2w0H2V8[/youtube]
Þó eflaust sé The Secret Life of Walter Mitty ekki allra held ég að allir ættu að geta skemmt sér vel yfir henni í bíó og þeim sem á eftir að finnast hún góð eiga eftir að elska hana.
Hún er algjör veisla fyrir augað, tónlistin er góð og passar mjög vel við stemminguna og það er auðvitað ótrúlega gaman að sjá Gunnar Helgason og Ólaf Darra Ólafsson standa sig vel í nokkuð stórum og eftirtektarverðum aukahlutverkum!
[usr 3.5]Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.