The Kings of Summer er ekta “krúttmynd” víða lýst sem blöndu af stórmyndinni Stand By Me og grínmyndinni Superbad og sú lýsing á ekki illa við.
Í aðalhlutverkum eru þrír nær algjörlega óþekktir ungir strákar sem standa sig frábærlega í því að bera myndina uppi, það eru þeir Nick Robinson, Gabriel Basso og Moises Arias (Despicable Me 2, Hannah Montana og Nacho Libre).
Hjónin Nick Offerman (Parks and Recreation) og Megan Mullally (Will and Grace) styðja svo vel við bakið á þeim.
Myndin fjallar að mestu leyti um Joe (Nick Robinson) sem býr einn með pabba sínum og eins og margir aðrir unglingar er hann smá týndur í lífinu. Joe, besti vinur hans Patrick (Gabriel Basso) og skólafélagi þeirra Biaggio (Moises Arias) rekast einn daginn á rjóður í skóginum rétt hjá heimili þeirra og Joe ákveður að hann ætli að byggja sér hús í rjóðrinu og flýja að heiman. Ólíkt flestum öðrum unglingum láta strákarnir til skarar skríða og byggja sér nokkuð stæðilegt tréhús í rjóðrinu, ræna foreldra sína svo af peningum og dósamat og flýja. Þeir njóta sín vel saman bara þrír en ákveða svo að bjóða nokkrum stelpum í heimsókn í tréhúsið sitt og þá slettist aðeins upp á vinskapinn.
Myndin er frábær unglingamynd og hún er líka frábær fyrir all sem hafa upplifað unglingsárin og sem hafa stundum orðið vitlausir á foreldrum sínum.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=cio8LOCZPzw[/youtube]
The Kings of Summer er drepfyndin, hjartnæm og vandræðaleg á köflum en það sem er mest gaman við hana er hvað maður nær að tengja vel við myndina og við tilfinningarnar sem karakterarnir í henni eru að upplifa þó það séu mörg ár síðan maður hefði átt að hætta að vera unglingur.
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.