Ég gat ekki beðið í einn dag eftir að fara á nýju myndina um Hobbitann svo ég lagði það á mig að skella mér á miðnætursýningu á frumsýningardaginn þar sem ég hafði verið upptekin allann daginn í jólabakstri (já ég veit að það “á” að baka fyrir jól…en ég bakaði þó allavega!).
Eins og hefur oft komið fram í umfjöllunum mínum um kvikmyndir hérna á Pjattinu þá er ég mjög mikið fyrir ævintýri og Hobbitinn er það ævintýri sem varðaði upphafið af þessu æði mínu. Þegar ég var 13 ára og það var ekki lengur kúl að lesa ævintýri heldur bara unglingabækur og ævisögur frægra einstaklinga þá gaf mamma mér nefnilega myndskreytta bók um Hobbitann sem ég sökkti mér algjörlega í og síðan hefur ekki verið aftur snúið.
The Hobbit: The Desolation of Smaug er önnur myndin af þremur í Hobbita-þríleiknum sem upphaflega var bara ein bók. Hobbitinn á sér stað nokkrum tugum ára áður en Hringadróttinssaga á að eiga sér stað. Peter Jackson hefur teygt nokkuð úr Hobbitanum og gert hana að enn meiri forsögu Hringadróttinssögu en bókin var nokkurtíma. Sumum finnst að þetta hafi aðeins verið gert til að mjólka pening úr áhorfendum en ég verð að segja að það hefur tekist nokkuð vel að semja í eyðurnar og vegna þessa höfum við fengið að sjá meira af nokkrum skemmtilegum karakterum úr bókinni.
Myndin hefst þegar dvergarnir þrettán, Bilbó og Gandalfur eru á flótta undan Orkunum og við fylgjum þeim eftir í heimsókn þeirra til Björns, í gegnum Myrkvið þar sem þeir hitta skógarálfana þ.m.t. ofur-fótósjoppaðann Legolas, fá svo far með Bárði til Vatnaborgarinnar og komast svo loks að Fjallinu Eina þar sem þeir hitta Smeyginn.
Myndin er eins og aðrar myndir Jacksons um hugarheima Tolkiens mjög flott og umhverfið er allt stórbrotið. Sagan er að sjálfsögðu spennandi og því sem hefur verið bætt við passar vel inn í söguna og bætir jafnvel smá spennu í hana sem hefði vantað hefði bókin verið færð beint í upprunalegri útgáfu á hvíta tjaldið. Það eina sem mér fannst tilfinnanlega vera að myndinni var það að hún hafi verið í 3D, en ég hafði endilega haldið að ég væri á leiðinni á 2D sýningu þar sem ég kann ekki vel við þessa þriðju vídd…líklega er það vegna aldurs 😉 Þriðja víddin var samt vel nýtt og fyrir þá sem hafa gaman að henni er um að gera að kíkja á þrívíddarsýningu.
Ég mæli að sjálfsögðu með myndinni fyrir alla aðdáendur Tolkiens og þá sem hafa gaman að ævintýramyndum! Og svo auðvitað alla hina líka því það þurfa einfaldlega allir að sjá Hobbitann!
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=fnaojlfdUbs[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.