Ég sá stikluna fyrir The Broken Circle Breakdown fyrir nokkru síðan og var ekki neitt voðalega spennt.
Þá sýndist myndin að mestu snúast um “redneck” Belga sem dreymdi bara um Bandaríkin, en líklega hef ég ekki verið að fylgjast nógu vandlega með því þegar ég las lýsinguna á myndinni þegar hún var tekin til sýninga í Bíó Paradís þá ákvað ég að myndin ætti alveg skilinn séns!
The Broken Circle Breakdown er belgísk mynd sem byggð er á leikriti eftir Johan Heldenbergh, sem leikur aðalhlutverkið í myndinni. Myndin fjallar um parið Didier (Johan Heldenbergh) og Elise (Veerle Baetens) og hún flakkar frá nútímanum og yfir í mismunandi tímabil í sambandi Didiers og Elise sem spannar um það bil 7 ár. Didier og Elise syngja saman í bluegrass hljómsveit og eignast fljótlega dótturina Maybelle (Nell Cattrysse) og líf þeirra virðist vera nokkuð dásamlegt.
En þegar Maybelle veikist alvarlega og Didier og Elise þurfa að kljást við erfiðleikana sem fylgja veikindunum hvort á sinn hátt koma brestir í sambandið.
Myndin er falleg og hugljúf og fjallar um annars konar ást en flestar glamúrmyndirnar sem mörg okkar horfa á í dag. Samband Didiers og Elise er einstaklega fallegt en samt sem áður raunsætt og sagan snertir við áhorfandanum alveg frá byrjun.
Þetta samband, dóttirn Maybelle og tónlistin ná svo í sameiningu að draga mann inn í söguþráðinn. Tónlistin sem spiluð er í myndinni er einungis bluegrass tónlist sem passar mjög vel við hjartnæma söguna og ég mæli eindregið með tónlistinni úr myndinni sem var bæði vel flutt og vel tímasett. Myndin hefur verið valin sem framlag Belga til Óskarsverðlaunanna 2014 og það kæmi mér alls ekki á óvart ef þeir myndu komast þar að með þessa fallegu mynd.
The Broken Circle Breakdown er aðeins sýnd í Bíó Paradís.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=JrBgSZIQAz0[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.