Ég fór á myndina Paradise: Love í bíó Paradís í gær og var hissa að sjá að á myndina var mættur nær fullur salur af fólki sem mér finnst því miður vera alltof óalgengt á þeim frábæru myndum sem Bíó Paradís sýnir.
Paradise: Love fjallar um konu frá Austurríki, Teresu, sem skellir sér til Kenýa í frí þar sem vinkona hennar er líka stödd.
Í Kenýa eru “sugarmommas” þekkt fyrirbæri en það eru konur sem koma þangað í frí og sofa hjá og eyða tíma sínum með svokölluðum “beach boys” og greiða þeim fyrir.
Þó að myndin heiti Paradise: Love fjallar hún um eitthvað svo langt frá ást að ég veit ekki einu sinni almennilega hvað það er en þær tilfinningar sem myndin fjallar um eru samt eitthvað skyldar greddu, einmanaleika og þörfinni til að vera elskaður.
Í myndinni fylgjumst við með Teresu frá því hún ferðast frá Austurríki til Kenýa þar sem hún leigir sér sína fyrstu hóru og er frekar mikið óörugg með þetta allt saman og fram til þess sem hún tekur þátt í kynsvalli með vinkonum sínum og karlkyns hóru á herberginu á hótelinu sínu.
Og hver reynsla er jafn hræðileg og vandræðaleg og pínleg og sú næsta allt að því marki að erfitt er að horfa á skjáinn. Sjálf held ég að ég hafi horft í kjöltuna á mér í staðin fyrir á myndina fjórðung myndarinnar.
Umfjöllunarefni myndarinnar, vændi, er að sjálfsögðu það sem aðallega gerir áhorf á myndina erfitt en það sem bætir svo á það er að þetta er óhefðbundið sjónarhorn á vændi. Vændiskaupandinn er kona, hórurnar eru karlmenn og það er á engan hátt reynt að leyna bágborinni stöðu þeirra og veikri stöðu gagnvart hvítu konunum sem eru kúnnar þeirra.
Það er pínlegt að heyra hvernig þeir hafa lært nákvæmlega hvað á að segja og hvað á að gera til þess að konurnar “láti eftir því” að sofa hjá þeim og borga þeim fyrir það, hvernig konurnar eru tregar til að borga þeim fyrir “þjónustuna” sem þeir veita þeim af því þær vilja sannfæra sig um að þessir menn elski þær og hvernig með tímanum konurnar verða algjörlega dofnar gagnvart því að það sem þær eru að gera er hræðilegur glæpur gagnvart öðrum einstakling.
Myndin er raunsæ og hún er átakanleg en jafnframt á köflum þónokkuð fyndin, sem gerir þennan “heim” enn raunverulegri.
Ég er ennþá að jafna mig almennilega á Paradise: Love og að reyna að vinna úr því sem myndin fjallar um en ég er viss um að þessa mynd þurfa sem allra flestir að sjá enda er hún um málefni sem snertir alla, allsstaðar.
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.