Ég gleymi því aldrei þegar ég heyrði fyrst í Amy Winehouse. Vinkona mín, sem er söngkona, lánaði mér diskinn Back to black.
Ég fór heim með hann og hlustaði. Hlustaði svo aftur, og aftur… og er enn að hlusta.
Amy Winehouse söng sig í sálarlíf mitt og situr þar föst og nú situr þessi mynd líka föst í kollinum á mér þó það sé vika síðan ég sá hana.
Við systir mín fórum saman að sjá myndina í Háskólabíó en þar er hún sýnd á vegum Græna Ljóssins.
Í myndinni, sem heitir einfaldlega AMY, fá áhorfendur að skyggnast aðeins á bak við tjöldin, kynnast þessari stelpu, -æsku hennar, uppeldi og svo örlögum sem réðust meðal annars af þunglyndi, fíkn og baneitruðu sambandi við kvennabósann Blake Civil Fielding.
Myndin fjallar ekki minna um fíkilinn og átröskunarsjúklinginn Amy… enda vilja hennar nánustu meina að það hafi á endanum verið lotugræðgin sem dró hana til dauða ekki síður en áfengið eða fíkniefni. Líkami hennar hafi einfaldlega bara verið of illa farinn til að hún réði við áfengið.
Amy Winehouse lést nefnilega ekki úr of stórum skammti fíkniefna eins og margir halda. Hún lést úr áfengiseitrun á heimili sínu í Camden þann 23. júlí 2011. Hún var þá með fimmfalt magn af vínanda í blóðinu.
Þegar hún hætti að dópa þá fór hún að drekka og ef hún var ekki að drekka þá var lotugræðgin alltaf ráðandi. Hún var líka með stjórnlausa þráhyggju fyrir fyrrnefndum Blake sem hafði ótrúleg tök á lífi hennar og tilveru. Amy var einfaldlega fíkill.
Á tímabili fannst mér myndin svolítið löng en eftir á að hyggja var hún það ekki. Leikstjórinn sagði allt sem þurfti að segja um þennan gullmola og kom því hárrétt frá sér á þeim tíma sem til þurfti.
Þegar hún hætti að dópa þá fór hún að drekka og ef hún var ekki að drekka þá var lotugræðgin alltaf ráðandi. Hún var líka með stjórnlausa þráhyggju fyrir fyrrnefndum Blake sem hafði ótrúleg tök á lífi hennar og tilveru. Amy var einfaldlega fíkill.
Ævisaga Amy Winehouse á erindi við alla. Bæði fólk sem elskar tónlistina og sönginn hennar en líka þau sem hafa áhuga á fíknum, tónlist og yfirleitt okkur nútímafólki. Og ef þú varst ekki þegar komin á kaf í tónlistina hennar þá lofa ég að þú munt liggja yfir Frank, Black to back og yfirleitt öllu sem þú kemst yfir eftir að þú sérð þessa mynd.
Myndin hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og full ástæða til. Ég gef henni fjórar og hálfa. Algjör snilld.
[usr 4.5]
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=Za3lZcrzzcM[/youtube]
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.