Það er ekki langt síðan ég braut odd af oflæti mínu og fór að horfa á ofurhetju og Sci-Fi myndir. Í byrjun gerði ég það bara til þess að sanna að ég hefði rétt fyrir mér, að þetta væru ofur-hæpaðar myndir með engum söguþræði og tæknibrellu overload-i.
Að sumu leyti hafði ég rétt fyrir mér en það er samt eitthvað sem gerir það að verkum að mér finnst þessar myndir alveg svakalega skemmtilegar. Það er erfitt fyrir mig að dæma þessar myndir á grundvelli þess hvernig teiknimyndasögurnar voru eða miðað við það hvernig gömlu myndirnar voru þar sem ég hef alveg látið það vera að kynna mér allt svoleiðis en út frá sjónarhorni áhorfanda sem er að kynnast þessu öllu í fyrsta skipti þá finnst mér Iron Man 3 mjög góð skemmtun!
Iron Man er einn af mínum uppáhalds ofurhetjum og hefur Robert Downey Jr. mikið um það að segja. Hann hefur verið í alveg sérstöku uppáhaldi síðan hann var kærastinn hennar Ally McBeal forðum daga og hann hafði mikið með það að segja að ég yfirleitt ákvað að horfa á Iron Man til að byrja með.
Fyrir allar sem ekki vita þá fjallar Iron Man um auðkýfinginn Tony Stark sem erfði fyrirtækið Stark Industries frá föður sínum.
Í fyrstu Iron Man myndinni bjó Tony til ofurhetju búning og þegar hann klæðist honum gengur hann undir nafninu Iron Man. Hann hefur þannig í raun enga ofurkrafta heldur er hann bara ofur-ríkur, ofur-gáfaður maður sem lenti í óvenjulegum aðstæðum. Myndirnar fjalla svo að stóru leyti um þælr óvenjulegu aðstæður sem hann virðist einhvernvegin alltaf koma sér í sem og samband hans við Peppert Potts (Gwyneth Paltrow).
Iron Man 3 gefur fyrri myndunum tveimur ekkert eftir og er byggð í kringum mun meiri hasar og læti en þær.
Í þessari mynd er Iron Man að kljást við hryðjuverkamann sem kallar sig “The Mandarin” en samkvæmt því sem Robert Downey Jr. hefur sagt þá hefur hann langað til þess að gera mynd sem fjallar um þann óvin alveg frá því að hann byrjaði fyrst að leika Tony Stark.
Myndin byrjar á svipuðum tíma og The Avangers endaði svo ég mæli með því að fólk sem ætlar sér að fara á Iron Man 3 og hefur ekki séð Avangers kíki á þá mynd áður.
Myndin er aðeins dekkri heldur en fyrri tvær myndirnar en sami kaldhæðnishúmorinn er þó alltaf til staðar. Ég mæli svo sérstaklega með því að fólk bíði inn í salnum þar til allur textinn hefur rúllað upp til að sjá sýnishorn úr næstu mynd frá Marvel.
Ég mæli svo sannarlega með Iron Man fyrir aðdáendur ofurhetjumynda en líka sérstaklega fyrir byrjendur í þeim geira þar sem vel er hægt að kalla Iron Man myndirnar “gateway-drug” inn í heim ofurhetjumyndanna.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=aV8H7kszXqo[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.