Næsta sunnudag verður myndin Morðsaga eftir Reyni Oddsson sýnd í Bíó Paradís kl 20:00.
Þetta er mjög nýstárleg mynd miðað við að hafa verið gerð árið 1977 og í raun mjög góð. Segja má að hún sé alveg í anda dönsku dogma myndanna bæði hvað varðar efnistökin og vinnuaðferðir.
Myndin segir frá ríkum forstjóra sem hefur misst sjónar á góðum gildum. Á ríkmannlegu heimilinu búa með honum drykkfelld, heimavinnandi eiginkona og uppeldisdóttir hans sem er ráðvillt og reikandi. Maðurinn fær ekki ráðið við ómótstæðilega girnd sem uppeldisdóttirin vekur í brjósti hans. Í örvæntingu er gripið til örþrifaráða.
Íslenskar bíómyndir fyrir frumsýningu Morðsögu voru afar fáar og langt á milli þeirra. Morðsögu, sem frumsýnd var 1977, má kalla vorboða íslenskra kvikmynda enda hófst samfelld framleiðsla þeirra tveimur árum síðar og hefur eftir það ekki liðið ár án frumsýningar íslenskrar bíómyndar.
Myndin þótti sæta miklum tíðindum, enda fékk hún mjög góða aðsókn þegar hún var sýnd í íslenskum bíóhúsum. Það sem kemur á óvart er hversu þroskað verk hún er að mörgu leyti þrátt fyrir að vera gerð við þröngan kost – og hversu sterkan samhljóm hún á með stefnum og straumum í alþjóðlegri kvikmyndagerð þessara ára. Þetta er ekki síst athyglisvert þegar haft er í huga að hún er gerð í tómarúmi hvað varðar þekkingu, aðstöðu og aðrar forsendur hér á landi.
Í þessum aðstæðum birtist okkur kvikmynd sem er ekki aðeins nútímaleg, heldur unnin af leikstjóra sem hefur greinilega ástríðu, áhuga og tilfinningu fyrir möguleikum miðilsins. Myndin var einnig í samtali við tíðarandann á íslandi á þessum árum þar sem Geirfinns og Guðmundarmálið var í hámarki í fjölmiðlum.
Alvöru áhugakonur um kvikmyndir ættu að skella sér í Bíó Paradís næsta sunnudag að sjá Morðsögu.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.