Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega hrifin af stórslysamyndum þar sem flestar snúast þær um óbreiska nær ómannlega einstaklinga, þ.e. einstaklinga sem ég get engan vegin tengt við.
Flight heillaði mig þar með ekki mikið þegar ég heyrði fyrst um hana, sérstaklega ekki þar sem ég heyrði að þetta væri sönn saga og þar sem þetta er Hollywood mynd var ég þar með viss um að sagan yrði fegruð út úr öllu samhengi og gerð að sömu Hollywood-vellu og allar hinar stórslysamyndirnar.
En eftir smá rannsóknar vinnu (lesist google-leit) komst ég hins vegar að því að myndin á sér enga stoð í raunveruleikanum en það hvernig vélin hrapaði er byggt á mörgum öðrum flugslysum og því hvernig flugstjórar brugðust við þeim.
Þar sem ég er hins vegar mikið kvikmyndanörd og langaði í bíó ákvað ég samt að skella mér á Flight í besta bíóinu, Laugarásbíó.
Myndin fjallar um flugstjórann Whip (Denzel Washington) sem er bæði alkahólisti og eiturlyfjanotandi. Myndin byrjar rétt áður en Whip flýgur vél frá Orlando til Atlanta en eitthvað fer úrskeðis í því flugi og flugvélin hrapar. Í vélinni eru 102 farþegar og aðeins 6 deyja en spurningin er hvort það sé Whip að þakka að aðeins 6 létu lífið eða hvort það sé honum að kenna að 6 létu lífið?
Flight er ágæt afþreying og ekkert þannig lagað út á hana að setja, ég verð samt að láta vera að kalla hana meistaraverk. Hún hefur mjög góða punkta og eins og í flestu öðru sem hann kemur nálægt þá er Denzel Washington einn af góðu punktunum. Eins og ég kom inn á áður þá eru stórslysamyndir oft byggðar á fullkomnum hetjum og það er mjög góð tilbreyting í Flight að sjá hetju sem hefur sína djöfla að draga.
Einnig er góð tilbreyting að horfa á mynd sem byggð er á upprunalegu handriti sem er ekki byggt á sönnum atburðum en það er nokkuð sem virðist dottið úr tísku þessa dagana.
Flight fær 7,3 á imdb sem verður að teljast nokkuð gott og var einnig tilnefnd til tveggja Óskarsverðlauna, fyrir besta leikara í aðalhlutverki og fyrir besta upprunalega handritið.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=MlFMZ5D8FNc[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.