Hungurleikarnir er ævintýraleg og um leið þjóðfélagsleg ádeila fyrir unglinga og fullorðna.
Ég er alveg forfallin aðdáandi Katniss Everdeen og las Hungurleika-bækurnar þrjár upp til agna rétt áður en fyrsta myndin kom út.
Söguhetjurnar okkar Katniss og Peeta berjast í hungurleikunum fyrir heimasvæði sitt (12ta svæði í Panem) og vinna. Þau verða hetjur þegar þau ögra yfirvaldinu með því að brjóta reglur leikanna sem segja til um að það megi aðeins vera einn sigurvegari, en þau standa eftir tvö sameinuð og hrinda ómeðvitað af stað uppreisn á verstu svæðum Panem. Í Panem vinnur fólk á svæðunum tólf þrælavinnu fyrir aðalsvæðið sem kallað er Capitol. Önnur bók/mynd “Eldar kvikna” segir frá því þegar þau Katniss og Peeta eru komin heim og þurfa að takast á við afleiðingar þess að ögra Snow forseta sem einskis svífst til að tortíma þeim sem óhlýðnast yfirvaldinu. Snow nær að gera hið óhugsanlega, að senda Katniss og Peeta aftur í hungurleikana til að berjast fyrir lífi sínu með þeirri ætlun að drepa þau og með þeim vonina sem hefur kviknað í brjósti fólksins og leitt til uppreisnar.
Í Hungurleikunum fáum við allan pakkan í einu- pólitískir klækir, barátta, hetjur, ást og ævintýri um leið og þetta er ádeila á raunveruleikasjónvarp,blekkingar fjölmiðla og misskiptingu auðsins í heiminum sem við lifum í. En Hungurleikarnir eru umfram allt frábærar spennusögur sem fær fólk (unglinga) til að hugsa og með svona líka frábæra kvenhetju í fararbroddi sem Katniss Everdeen er.
Ég var mjög sátt við fyrstu myndina og fannst Jennifer Lawrence fullkomin í hlutverki hetjunnar minnar en ég verð að segja að mynd nr. 2 Catching Fire er enn betri en sú fyrsta, hún nær að segja söguna ítarlega, er dýpri og enn meira spennandi en sú fyrsta. Mynd sem öll fjölskyldan hefur gaman að (eða þau sem eru 10+) og ef það eru einhverjar bækur sem unglingar hafa gott og gaman af að lesa þá eru það þessar. Ég er amk. að fara lesa þríleikinn aftur núna.
Myndin er sýnd í Laugarásbíó og víðar og fær fullt hús stiga frá mér og fjölskyldu minni.
[youtube]http://youtu.be/EAzGXqJSDJ8[/youtube]
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.