Ég fór í Laugarásbíó í gær á nýju myndina hans Baltasars Kormáks (sem er opinberlega orðinn einn af uppáhalds kvikmyndaleikstjórum mínum) – Djúpið!
Myndin er eins og flestir vita byggð á sannsögulegum heimildum og hún er virkilega vel gerð í alla staði. Þar sem ég þoli ekki þegar fólk segir frá of miklu um kvikmyndir, ekki einu sinni þegar um er að ræða þessar byggðar á sannsögulegu efni, ætla ég ekki að gera það – heldur bara fara létt yfir það sem mér fannst gott.
[youtube]http://youtu.be/x2cXyRli7R4[/youtube]
Myndin er eins og flestar myndir Baltasars full af fallegum tökum. Það er virkilega gaman að sjá listrænt ívaf í kvikmyndum…
Einnig er farið mjög vel með efnið. Djúpið er unnin af virðingu fyrir atburðinum og sögunni og aldrei er vikið of langt frá sannleikanum. Baltasar skilar sögunni vel og nær að kalla fram rammíslenskan andblæ.
Djúpið er afskaplega áhrifarík kvikmynd og það er ekki síst vegna tónlistarinnar. Allan tíman var ég að velta því fyrir mér hver bæri ábyrgð á tónlist myndarinnar og það eru víst þeir Ben Frost og Daníel Bjarnason. Þetta er virkilega vel gert hjá þeim!
Og að leiknum. Ég veit að ég tek oft stórt upp í mig en treystið mér, um er að ræða leiksigur hjá Ólafi Darra Ólafssyni. Allir leikarar myndarinnar standa sig vel en Ólafur Darri sýnir þarna mátt sinn og megin, rétt eins og söguhetjan, hetjan sem synti í land sem á mestan heiður skilið: Guðlaugur Friðþórsson.
Ég varð djúpt snortin á Djúpinu. Allir Íslendingar verða að sjá þessa kvikmynd!
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.