Í gærkvöldi fór ég í fyrsta ballettíma vetrarins í Klassíska Listdansskólanum. Þetta er byrjendanámskeið fyrir “stórar” ballerínur og þarna lærum við grunnsporin:
Fyrsta position, önnur position, þriðja, sjötta og svo framvegis.
Einhver heldur kannski að það sé auðvelt að spenna ristina, lærin og þjóhnappana á meðan ilin er dregin eftir gólfinu og fætinum er haldið teinréttum. Kannski fyrir einhverja en þegar á sama tíma verður að passa upp á að bakið sé beint og hálsinn og kollurinn teygi sig upp til himna á meðan maginn sogast inn….þá fer þetta allt í eina flækju. Ég fæ þvílíkan sinadrátt í tærnar og undir ilina að hann gæti talað til mín á frönsku ef hann vildi!
Auðvitað er þetta svona gott vont en mig langar svo að verða betri og þess vegna verður að æfa og æfa og æfa.
Auk þess að æfa, er sömuleiðis gaman að breyta til, stíga út úr hversdagsleikanum og inn í allt annan heim. Allt í einu erum við ekki á Íslandi, heldur í balletlandi þar sem bara er spiluð klassísk tónlist og allir taka K-vítamín til að losna við mikinn sinadrátt!!
Þessu ballettnámi fylgir allt önnur og heillandi menning. Hér borða til dæmis allir mjög hollan mat og passa vel upp á líkamann sinn, sem er í senn atvinnutæki hvers dansara. Við skólann kenna margir kennarar sem eru erlendir atvinnudansarar og því verður til anski hreint skemmtilegt og alþjóðlegt andrúmsloft. Hér heyrast öll tungumál töluð.
Sem Pjattrófa hef ég líka mjög gaman af tískunni sem tengist ballettnum. Bleikar tátiljur, bleikar sokkabuxur er eitthvað sem mér finnst ofsalega fallegt, enn flottara að setja þetta saman við hið eina og sanna tutu-pils.
Hér er svo linkur á flottustu skóverslunina í París sem framleiðir balletskó fyrir konur: www.repeto.fr
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.