Það hefur alltaf stuðað mig þegar fólk segist vilja „frelsi“ og notar það sem útskýringu á því af hverju það er ekki í sambandi. Ég skil þetta sem svo að sambönd geti bara alls ekki verið eftirsóknarverð ef í þeim er fólgin einhverskonar frelsisskerðing. Ég meina, fólk er læst inni í fangelsum til að refsa því. Þú brýtur af þér, ert lokuð/aður í fangelsi og mátt ekki fara út. Wtf? Það er ekki gaman. Eru sambönd í alvöru þannig? Er í alvöru bara eðlilegt að segjast vilja vera „frjáls“ og hafa það sem ástæðu fyrir því að vera ekki í sambandi?
Fyrir mitt leyti þá veit ég að ég gæti ekki hugsað mér að vera í sambandi þar sem ég myndi upplifa mig ófrjálsa. Í mínum huga eru öll góð sambönd þannig að fólk er afslappað og bara alveg það sjálft, sinnir áhugamálum sínum og vinum án þess að það sé eitthvað vesen.
Er samband eins og að vera í 9-5 vinnu?
Kannski er þessi frelsisskerðing sem fólk talar um svipuð og sú sem ósjálfrátt fylgir því að vera launþegi í fastri 9-5 vinnu. Þú ert með ákveðnar skyldur og þarft svo að fá leyfi frá yfirmanninum til að fá að taka þér frí, skreppa í klippingu eða til tannlæknis, í sumarfrí eða taka langan löns.
Svona þegar ég segi það þá hlýtur þetta að vera málið? Sambúð og fjölskyldur eru auðvitað lítil fyrirtæki og því stærra sem batteríið er því fleiri eru skyldurnar; börn, tómstundir, matartímar, Kanarí eða bústaður, sparnaður og allt það.
Þetta er eins og að vera tveir yfirmenn (vonandi) í fyrirtæki með kennitölu og bókhaldi og það gengur væntanlega ekki ef annar yfirmaðurinn tilkynnir allt í einu að hann ætli að fara á fund í Dubai og vera þar í fimm vikur. Ferðin kosti tvær og hálfa, mínus dagpeninga. Hinn yfirmaðurinn myndi bara sitja eftir með opin augu og þverstrik í framan. Hætta. Fara. Finna aðra vinnu.
Maður getur ekki bara flippað út í eitt án þess að fá það í hausinn seinna. Maxa kreditkortið, kaupa ljósabekk og þamba Mõet og Bollinger á bak við gardínu alla daga.
Það er sagt að frelsi sé ekki til án ábyrgðar. Maður getur ekki bara flippað út í eitt án þess að fá það í hausinn seinna. Maxa kreditkortið, kaupa ljósabekk og þamba Mõet og Bollinger á bak við gardínu alla daga.
Ætli ábyrgðin sem felst í því að vera frjáls í sambandi felist ekki bara í góðu skipulagi á milli parsins? Alveg eins og gengur með góð fyrirtæki þá eru plön og áætlanir gerð fram í tímann og svo er reynt að halda prógramminu:
„Heyrðu elskan, mig langar að skreppa til Spánar í SPA ferð með Gullu eftir tvo mánuði. Ert þú nokkuð með eitthvað annað á dagskrá?“ og svo ágætis starfslýsing heima fyrir. Plana bara og vita hver á að gera hvað svo að allt verði ekki gersamlega ömurlegt eins og á disfúnksjónal vinnustað.
Launalaus hamstur í hlaupahjóli? Nei takk
Þetta hljómar ferlega ósexý en sem sérleg áhugamanneskja um samskipti þá reiknast mér til að plön og prógrömm hljóti bara að vera grundvallar atriði ef vilji er til að halda sambandinu gangandi og öllum glöðum og kátum. Svo held ég að fólk þurfi að vera sammála um hvort að þeirra framlag sé nóg. Það er svo ömurlegt þegar manni líður eins og maður sé að leggja sig svaka mikið fram en fái ekkert til baka. Svona eins og að vera launalaus hamstur í hlaupahjóli. Hversu glatað?
Eftir þúsund samtöl, 24 túrbó tíma í pararáðgjöf, parasvett og skipulögð deitnæts þá slítur fólk auðvitað samstarfinu/sambandinu ef ballansinn heldur bara áfram að vera svona ójafn. Það segir sig sjálft. Og ég er ekki bara að tala um peningalegan ballans. Framlag er líka fólgið í tíma; að sækja og skutla, sinna heimilinu, gera það sem maður segist ætla að gera og er búin að lofa að gera, sýna umburðarlyndi og skilning ef makinn er veikur, stressaður og svo framvegis. Framlag er allskonar og það verður að vera í báðar áttir og það verður að vera tekið eftir því. Metið að verðleikum. Alveg eins og á vinnustaðnum.
Kannski auðvelt fyrir mig að segja það en ég veit að ef ég myndi upplifa mig ófrjálsa í sambandi þá væri ég ekki lengi að skella á mig varalit, strunsa að útidyrunum og æpa „I will survive“ um leið og ég grýtti lyklinum í fangavörðinn.
Í sitthvoru lagi á Interail? Er það hugmynd?
Þannig að já, aftur að kjarna málsins:
Frelsisskerðing er ekki góð og það er hálf sorglegt að hugmyndin um að vera tvö saman og frjáls sé svona sjaldgæf. Kannski væri það öllum miðaldra pörum hollt að fara í sitthvoru lagi á Interrail eða til S-Ameríku þegar krakkarnir stálpast? Eða bara á meðan krakkarnir búa heima? Þá fá líka bæði að upplifa hvernig það er að vera einstætt foreldri og það hlýtur að vera lærdómsríkt.
Kannski auðvelt fyrir mig að segja það en ég veit að ef ég myndi upplifa mig ófrjálsa í sambandi þá væri ég ekki lengi að skella á mig varalit, strunsa að útidyrunum með úfið hár og æpa „I will survive“ um leið og ég grýtti lyklinum í fangavörðinn.
Hin fallega tilfinning, frelsi, á að vera ríkjandi í samböndum sem utan þeirra. Frelsið er okkur öllum heilagt í grunninn og hvort sem er á stóra skalanum, í pólitík og mannréttindum eða á minni skala eins og í samböndum og samskiptum þá verður frelsið að vera til staðar ef sálin á að vera sátt.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.