Reykjavik
17 Mar, Sunday
3° C
TOP

Hvítar menntaðar millistéttarstelpur sem rappa

Ég var að fá nýtt áhugamál. Hvítar vel menntaðar millistéttarstelpur sem rappa. Tvær slíkar hafa gersamlega slegið í gegn hjá mér nýlega. Önnur er frá Bretlandi og heitir Kate Tempest (f. 1985), hin er sænsk og heitir Silvana Imam (f. 1986).

Silvana er af Litháenskum og Sýrlenskum ættum. Það gefur því alveg auga leið að hún rappar meðal annars um tilvist innflytjenda og pólitík í Svíþjóð. Hún gaf út fyrstu breiðskífu sína árið 2013 en sú síðasta, Naturkraft, kom út á síðasta ári. Silvana er lesbía, ekki að það skipti sérstöku máli en hún fékk engu að síður tilnefninguna Homo of the Year árið 2015 sem mér finnst mjög fyndinn titill. Svo kom hún á síðustu Airwaves hátíð og kemur vonandi aftur.

Hér að ofan má horfa og hlusta á lagið Tänd alla ljus eða… Kveikið öll ljós, með Silvönu Imam og svo finnur þú fullt af fleiri lögum með henni á Youtube rásinni hennar.

Kate Tempest

Kate-Tempest-21Svo er það hún Kate Tempest sem hefur verið tekið mjög svo fagnandi af bókmennta og ljóðasamfélaginu í London. Fengið virt verðlaun og allt. Ein af fimm systkinum, úr frekar fátækri fjölskyldu og svona líka frábærlega orðhög. Örn vinur minn (sem er heimspekingur og hjúkrunarfræðingur  búsettur í Köben) kynnti mig fyrir Kate einhverntíma í fyrra og leyfði mér að heyra lagið Europe is Lost af plötunni Let them eat Chaos.

Líkt og Silvana er Kate alveg þrumandi pólitísk en textinn í laginu er frekar þunglyndislegur. Henni finnst allt mjög ómögulegt í Evrópu um þessar mundir og við fáum að heyra það. En ómæ ómæ hvað manneskjan kann að koma fyrir sig orði. Textinn er flugferð um samtímann hér á Vesturlöndum, ástandið á unga fólkinu, ástandið á okkur sjálfum.  Hér er svo annað lag með henni sem er öllu hressara. Tilvistarkrepputónar. Við förum hring eftir hring.

Ef þú ert með fleiri ábendingar um svona sérfræðinga þá væri ég alveg til í að heyra þær via Facebook síðu okkar á Pjattinu.

Margrét byrjaði að blogga árið 2002 og hefur verið óstöðvandi á þessu sviði allar götur síðan. Hún hefur að mestu starfað við fjölmiðla frá tvítugsaldri og þá einna helst við ritstjórn og blaðamennsku, en einnig útvarp og sjónvarp. Hún flutti til London sautján ára og komst til manns í Kaupmannahöfn þar sem hún lærði m.a. margmiðlun og myndlist. Margrét býr ásamt einkadóttur sinni á Seltjarnarnesi, elskar ferðalög, veitingahús, veislur og vini sína enda krabbi, með tungl í ljóni og rísandi vog.