Hvítar lygar nefnist frábær mynd sem sýnd er á franskri kvikmyndahátíð í Háskólabíó. Fyrir þá sem kunna að meta góðar myndir og fíla það líka vel séu þær franskar er tvímælalaust hægt að mæl með þessari: Allur salurinn grét og hló til skiptis þegar myndin rúllaði á tjaldinu.
Sagan fjallar um veitingahúsaeigandann Max og konu hans sem árlega bjóða nokkrum góðum vinum í sumarhús sitt. Í þetta skiptið lendir einn úr vinahópnum í alvarlegu slysi sem hefur mikil áhrif á vinina. Þau ákveða þrátt fyrir það að halda plönum sínum til streitu og fara í fríið vitandi að vinur þeirra liggur illa slasaður á spítala.
Atburðarásin verður hins vegar til þess að hulunni er svipt af ýmsum vandamálum sem vinirnir glíma við en hafa ekki viljað horfast í augu við. Þessar svokölluðu hvítu lygar koma síðan í ljós undir lokin.
Ákaflega mannleg mynd í leikstjórn frábærs leikstjóra, Guillaume Canet. Flottur leikur hjá afbragðs leikurum sem fengu bíógesti til að engjast um af hlátri og brynna músum með jöfnu millibili.
Smelltu HÉR til að sjá hvenær myndin er sýnd.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.