Stefán Karl Stefánsson og Jóhannes Haukur Jóhannesson eru flestum Íslendingum góðu kunnir. Þeir eru fáránlega hæfileikaríkir leikarar, fyndnir og uppátækjasamir og það sem meira er: Þeir eru báðir úr Hafnarfirðinum!
Mögnuð tilviljun myndu margir vilja halda fram. Þeir félagar leika nú saman í söngleiknum Spamalot sem frumsýndur verður á föstudaginn í Þjóðleikhúsinu. Söngleikurinn kemur úr smiðju Monty Python hópsins og er víst alveg sjúklega fyndinn.
Þar sem Pjattið er oftast á kafi í menningu og listum (af því menning og listir eru pjatt…) vildum við heyra aðeins í drengjunum, komast að einhverju um þá og þetta leikrit í leiðinni.
STEFÁN KARL STEFÁNSSON
Aldur, starf, eiginkona og börn? 38 ára, leikari, giftur Steinunni Ólínu og við eigum 4 börn.
Hvenær sagðirðu fyrsta brandarann og hvernig gekk? Ég sagði pabba heitnum fyrsta brandarann í vörubílnum á leið í Hvalfjörð. Þetta var brandarinn um Emil maur og pabbi hló að þessum brandara alveg til dauðadags. Þá fékk ég þá flugu í hausinn fyrst að ég gæti verið fyndinn.
Hefurðu samið brandara? Hvernig er hann? Laddi sagði að maður þyrfti að segja ca 100 brandara og þá geturðu verið viss um að 1-5 virkar. Ég reyni að fylgja þessari reglu.
Hversu pjattaður ertu á skalanum 0-17? Ég er í 7. Ég er pjattaður í ákveðnum málum. Það kemur stundum pjattrófa yfir mig. Þetta gerist stundum eftir vinnutörn, þá ákveð ég að taka heimilið í gegn og gera eitthvað flott fyrir mig.
Hvort væri verra að vera ekki með síma eða net? Netið! Af því að ég er með síma á netinu 😉
Lestu blöðin? Ég kíki í þau. Annars les ég mest á netinu.
Hvað er uppáhalds sjónvarpsefnið þitt? Góðar velleiknar sjónvarpsseríur, t.d. Breaking Bad, American Horror Story og Six Feet Under. Þetta er orðið svo vel gert núorðið. Almennilegir bíóleikarar farnir að leika í sjónvarpi.
Hver er fyndnastur og hver er fyndnust? Kona mín er hræðilega fyndin. Annars á ég mjög auðvelt með að hlæja, mér finnst mjög margt fyndið. Mér finnst t.d. ekkert jafn fyndið og þegar fólk dettur mjög illa. Ég bendi sérstaklega á fyndnasta “dett” kvikmyndasögunnar en það er þegar Philip Seymour Hoffman heitinn dettur í Along Came Polly. Ég elska þegar menn gera mistök og reyna að breiða yfir þau.
Af hverju á fólk að sjá söngleikinn Spamalot? Af því að það getur ekki lengur séð Mary Poppins. Spamalot er líka tilvalið fyrir fólk sem hatar söngleiki. Söngleikurinn gerir stólpagrín af söngleikjum og er alveg sjúklega fyndinn. Hann er eins og plágan, það smitast allir af þessu.
Nú ertu að leika í söngleik. Hvað lætur þig halda að þú getir sungið? Ég get ekkert sungið. Það er hinsvegar alltaf verið að halda því fram að ég geti það, þannig að ég læt alltaf plata mig í þessa vitleysu. Svo get ég líka alltaf afsakað mig ef ég er eitthvað falskur þá var það karakterinn sem var falskur, ekki ég. Og hann átti að vera það!
JÓHANNES HAUKUR JÓHANNESSON
Aldur, starf, eiginkona og börn? 34 ára, leikari, mikilvægur hlekkur í vísitölufjölskyldu í Laugardalnum.
Hvenær sagðirðu fyrsta brandarann og hvernig gekk? Ég hef sennilega verið mjög ungur, kannski 3-4 ára. Það gékk vel en ég skrifa það á hefðbundna meðvirkni með krökkum og þeirra gríni.
Hefurðu samið brandara? Hvernig er hann? Ég hef skrifað þó nokkra en skila sér illa á prenti. Skora á alla sem hitta mig að rukka mig um einn munnlegan.
Hversu pjattaður ertu á skalanum 0-17? Sennilega 13. Ég meika ekki að halda á dauðum dýrum, t.d. gæs sem búið er að skjóta eða mús úr músagildru. Á þetta hefur reynt.
Hvort væri verra að vera ekki með síma eða net? Net, maður getur verið í samskiptum við fólk á netinu.
Lestu blöðin? Já, nokkuð samviskusamlega. Nema Moggan ég les hann ekki, ekki frekar en fréttabréf LÍÚ.
Hvað er uppáhalds sjónvarpsefnið þitt? Ef ég hefði tíma til að horfa á sjónvarp þá kannski ætti ég mér eitthvert uppáhaldssjónvarpsefni. En ég fílaði alltaf Seinfeld og Simpsons.
Hver er fyndnastur og hver er fyndnust? Saga Garðarsdóttir toppar bæði kynin en Stefán Karl er fyndnastur í karlaflokki, ég er pínu skotin í honum.
Af hverju á fólk að sjá söngleikinn Spamalot? Það á ekkert að gera það, en það má það. Ef það vill njóta lífsins og alls þess sem það hefur uppá að bjóða.
Nú ertu að leika í söngleik. Hvað lætur þig halda að þú getir sungið? Það eru aðrir sem halda það og ráða mig í söngleiki. Ég hef ekki fengið kvartanir hingað til.
Pjatt.is þakkar piltunum fyrir. Næsta skref er svo að bregða sér í betri skóna og skella sér í Þjóðleikhúsið um helgina. Af því við getum það.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.