Haustið 2010 þykir aðeins eitt meira töff en að vera hipster: Að hata hipstera!
Undanfarið ár hafa blogg sem gera grín að hipsterum margfaldast. Vefsíður eins og til dæmis Hipsters Need to Pee og Look At This Fucking Hipster hafa farið um vefheima eins og eldur í sinu og nýjar spretta upp mánaðarlega. Ég eyddi síðastiðnu sumari í Berlín en slíkur var fjöldi hipstera í þeirri ofur svölu borg að við skötuhjúin íhuguðum að stofna bloggið Hipsters eating icecream.com.
Hipsterar þar, eins og allstaðar, voru nefnilega á hverju götuhorni að sleikja rjómaís í steikjandi sumarhitanum. Strákar í þröngum stuttum buxum, berfættir í mokkasínum, í flegnum hlírabol og köflóttri stuttermaskyrtu yfir og helst með hatt, sólgleraugu og perralegt yfirvaraskegg. Þeir, nú eða þær, pósuðu helst með ísinn í almenningsgörðum, götuhornum eða upp við ljósastaura.
Nú verð ég að viðurkenna að ég og vinkonur mínar höfum hlegið dátt bæði að hipstermaníunni miklu og vefsíðunum sem hata hipsterana en það eru kannski ekki allir sem gera sér grein fyrir því hvað hugtakið enska hipster þýði eiginlega.
Mín eigin skilgreining á hipster er manneskja sem er upptekin af því að ganga í tískumerkjum sem þykja kúl; fólk sem reynir að vera svalt á dálítið kjánalegan hátt með því að klæðast hlutum sem eru kannski ekkert afskaplega klæðilegir eða flottir þrátt fyrir að bera eitthvað merki sem þykir töff þá stundina.
Ef einhver sá myndbandið við lagið Being a dickhead’s cool, á YouTube í haust með hljómsveitinni The Grand Spectacular þá lýsir textinn því sérstaklega vel hvað felst í því að vera hipster. Sem dæmi má nefna að ganga í fjólubláum leggings, vera í flegnum bol og spila á hljómborð, vera með stór svört gleraugu með engum glerjum og gjarnan vera með tískublogg.
Svo þykir töff að vera með Polaroid -effect á I-Phone símanum sínum og taka myndir af vinum sínum til að pósta upp á Facebook. Setningin í laginu “having new age fun with a vintage feel.” lýsir líka heilmiklu.
Í nýlegri grein í breska dagblaðinu The Guardian er fjallað um þetta hipster-hatur sem er að færast í aukana. Þar er hipsterinn skilgreindur á þrennskonar vegu.
- Fyrsta tegundin er Terry Richardson týpan sem gengur um í hlýrabolum og höttum með yfirvaraskegg og gengur í marglitum sokkum, American Apparel fötum og drekkur Pabst Blue Ribbon bjór.
- Önnur týpan er fólkið sem dýrkar hipster menningu eins og kvikmyndir eftir Wes Anderson, bækur eftir Dave Eggers og indí tónlist.
- Þriðja týpan er svo fólkið sem finnst rétti stuttermabolurinn jafngilda list og er mjög upptekinn af því að kaupa réttu hlutina, eins og til dæmis nýjasta “city” hjólið og síðustu plötuna með Arcade Fire.
The Guardian benti lesendum sínum góðfúslega á að hætta að hata hipstera og læra í staðinn að meta þessar skondnu týpur.
Jæja nú ættu flestir lesendur að hafa einhverja hugmynd um hvað felst í hugtakinu hipster. Það eru ófáir hipsterar i Reykjavík sem og öðrum borgum og þeir eru auðmerkjanlegir á Laugaveginum (Kringlan og Smáralind eru auðvitað ekki nógu kúl). Ljósmyndarinn Facehunter hefur til dæmis verð iðinn við að mynda hipstera á götum borgarinnar og að sjálfsögðu var ekki þverfótað fyrir hipsterum, erlendum sem innlendum, nú um helgina á tónistarhátíðíðinni Iceland Airwaves.
Hér eru dæmi um nokkrar vefsíður sem hafa horn í síðu hipstera:
http://stuffhipstershate.tumblr.com/
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.