Breska pressan tók aldeilis kipp í gær þegar konungleg trúlofun Prince William og Kate Middleton var kunngjörð.
Ljóst er að brúðkaupið verður brúðkaup áratugarins hvað fjölmiðla varðar og breskir blaðamenn á SkyNews í gærkvöldi brostu hringinn þegar þeir fjölluðu um málið. Ekki kom að sök að erfðaprinsinn færði tilvonandi prinsessu sinni frægan safírhring sem var áður í eigu móður hans Díönu prinsessu.
Kate Middleton mætti á á fjölmiðlafund í gær í penum og prúðum safírbláum silkikjól í stíl við gersemina. Við má búast að fatavali Kate Middleton verði fylgt eins grannt eftir af pressunni og hjá Lady Di sálugu.
Hið konunglega brúðkaup þeirra skötuhjúa verður án efa stórfenglegt enda um framtíðarkonung Bretlands að ræða. Vangaveltur eru nu þegar byrjaðar um hvernig kjól Kate muni klæðast á brúðkaupsdaginn. Breska pressan veðjar á kjól frá merkinu Issa frá brasílíska hönnuðinum Daniellu Helayel sem er í uppáhaldi hjá framtíðarprinsessunni.
Ljóst er að Kate muni velja sér klassíska hönnun þar sem stíll hennar er látlaus og hefðbundinn. Tískuspekúlantar vestanhafs vilja þó meina að ungfrúin verði aldeilis í skotlínu fjölmiðla á næstunni og muni vanda sig sérstaklega við fataval næstu mánuðina og jafnvel ráða sér stílista.
Hér gefur að líta nokkrar myndir af Kate Middleton frá undanförnum tveimur árum og tískupælarar geta því skemmt sér við að spá í hvernig brúðarkjóllinn muni koma til með að líta út.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.