Þessi spurning er sem betur fer að verða hálfgerð tímaskekkja. Þó er ekki enn búið að útrýma þeim hugsunarhætti að sökin sé að einhverju leyti konunnar ef hún verður fyrir ofbeldi af því tagi sem nauðgun er.
Leiðbeiningarit um hegðun og hátterni gefa oft góða mynd af þeim tíðaranda sem ríkti við ritun þeirra. Bandaríska kvimyndastjarnan Joan Bennet skrifaði sjálfshjálparbókina How to be Attractive í byrjun fimmta áratugarins. Bókin kom út á íslensku undir heitinu Aðlaðandi er konan ánægð og í henni er konum m.a. gefin ráð um hvernig koma megi í veg fyrir að karlar gerist of „nærgöngulir“ við þær.
Höfundur getur þess að í flestum tilfellum geti stúlkur sjálfum sér um kennt þar sem þær örvi mennina til þess að verða nærgöngula en hegði sér síðan mjög svo bjálfalega.
Nú er að sjálfsögðu talsverður munur á hugtökunum að nauðga og vera nærgöngull, en hins vegar bera þessar ráðleggingar sem Bennet gefur stúlkum merki um að með látalæti sínu örvi konur karla upp að því marki að þeir missi stjórn:
„Djarflega talað er sannleikurinn sá, að hinum nærgöngula heiðursmanni finnst þér vera girnileg.“ Þegar svo er komið fyrir honum þá verður skoðun hans „blinduð þá stundina.“
En víkjum nú að því hvað konum ber að forðast til að koma í veg fyrir ofbeldi af þessu tagi samkvæmt frú Bennet:
a. Drekkið ekki áfengi, svo að þér verðið kennd eða ástleitin.
b. Sýnið manninum ekki nein blíðuatlot, þó sakleysisleg séu. Það kann að misskiljast og er rangt gagnvart manninum.
c. Verið ekki kæruleysisleg í orðum eða gróf, til þess að sýna, hve „veraldarvön“ þér séuð.
d. Verið ekki í einrúmi með manninum, farið ekki í heimsókn til hans í einkaherbergi hans, eða ferðalag með honum einum.
e. Látið yður ekki í kjass og kossa, með þeim lyktum, að verða móðursjúk og móðguð, er maðurinn heldur yður fúsa til fylgilags við sig.
f. Í stuttu máli sagt: Lofið ekki meiru en þér viljið efna.
Hljómar allt bæði vel og kunnuglega.
Svo má alltaf prófa að segja bara nei. Eða hvað?
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.