Fimm táknmál ástarinnar er hugmyndafræði sem gengur út á það að við notum ólíkar leiðir til þess að tjá ást og væntumþykju; hrós, gæðastundir, gjafir, þjónustu og snertingu.
Hvert og eitt okkar notar mestmegnis eitt af þessum ástartáknmálum til þess að tjá hlýju okkar, bæði þegar kemur að maka sem og fjölskyldu og vinum.
Vandamálið er að þar sem þessi ástartáknmál eru fimm þá eignast flestir maka sem notar annað táknmál en það sjálft. Misskilningurinn sem sprettur af því er að karlmaður gæti t.d. ausið gjöfum á konuna sína en ef konan er með þjónustu sem ástartáknmál þá yrði hún mun hamingjusamari ef hann myndi ryksuga heimilið endrum og eins.
Hún gæti jafnvel talið að hún væri ekki elskuð af því að maki hennar sýnir henni ekki væntumþykju á þann hátt sem hún túlkar sem ást.
Hvert og eitt okkar á sitt ástartáknmál – hér getur þú tekið próf til að uppgötva hvert þitt er. Sé þitt táknmál snerting þá vilt þú haldast í hendur, kyssast, faðmast eða sitja þétt saman í sófanum yfir sjónvarpinu, svo dæmi séu tekin.
Sá sem þarfnast hróss þarf á því að halda að maki þeirra tjái upphátt – í töluðu eða rituðu orði – hvað þeim finnst um hann. Þeir sem tjá sig með þjónustu líður vel þegar maki þeirra er duglegur að gera þeim greiða og hjálpa til við heimilisstörfin í hinu daglega amstri.
Manneskja sem er með gæðastundir sem ástartáknmál þarfnast þess að gera hluti með maka sínum sem tengjast áhugamáli þeirra eða einfaldlega tíma sem þau eyða saman án truflunar – líkt og að fara í gönguferð um hverfið. Sá sem vill fá gjafir þarfnast ekki rándýrra gjafa upp á hvern dag, heldur kannski blóma einstaka sinnum eða lítilla gjafa – mögulega handunna – sem þurfa ekki að kosta neitt.
Við höfum öll þörf fyrir að vera elskuð en ef sú ást er ekki tjáð á þann hátt sem við skiljum er hætt við því að við túlkum það sem svo að ástvinum okkar þyki ekki nógu vænt um okkur. Sá misskilningur kemur í veg fyrir að við upplifum þá nánd sem við erum að reyna að nálgast í samböndum. Við gætum hins vegar fengið þessum þörfum sinnt með því að greina hvert okkar ástartáknmál er og hvaða táknmál maki okkar notar.
Ef að við vitum hvað vantar upp á þá getum við beðið maka okkar um að sýna okkur ást og hlýju á þann hátt sem við þörfnumst og gert hið sama fyrir hann eða hana.
Guðný Guðmunds fæddist árið 1986 og ólst upp á Vestfjörðum. Hún hefur aðallega verið búsett í Reykjavík en líka alið manninn í Barcelona, Finnlandi og Englandi. Í dag starfar hún sem texta- og hugmyndasmiður auk þess sem hún rekur Innblástur.is, upplýsingasíðu um nám, atvinnu og ferðalög fyrir ungt fólk. Guðný hefur þó mestan áhuga á andlegum málefnum og sjálfsrækt.