Elskulegi kærasti – Hvernig áttu að koma í veg fyrir að þín heittelskaða vilji hanga í þér öllum stundum og verði það sem við köllum… ‘needy’?
Sambandið byrjar kannski vel, hún gefur þér allt það rými sem þú þarft og er ekki taugaveikluð og stressuð en svo allt í einu verður hún — Fröken Erfið!
Já – Hvað skal til bragðs taka?
Vanalega þýðir þetta bara að skvís er ekki nægilega örugg í sambandinu. Og ef hún er óörugg þá færð þú að finna það með því að hún virðist einhvernveginn þarfnast þín öllum stundum. Getur ekki af þér séð. Vill alltaf vita hvað þú ert að gera, með hverjum og hvar.
Hér eru 5 einfaldar aðferðir til að laga vandann:
1. Gerðu það sem þú segist ætla að gera
Þegar þú byrjaðir að stíga í vænginn við hana þá gerðiru alltaf það sem þú sagðist ætla að gera. Þú hringdir þegar þú sagðist ætla að hringja. Komst þegar þú ætlaðir að koma og sendir sms þegar þú sagðist ætla að gera það.
Hún túlkar þetta sem áhuga á sér og leggur saman tvo og tvo. Hann hringir þegar hann segist ætla að gera það. Ok. Hann vill vera með mér. Ef þú hættir þessu svo bara allt í einu eða hættir að muna eftir því að hafa samband þá heldur hún að þú sért ekki lengur eins spenntur. Hún heldur jafnvel að þú hafir misst áhugann. Og þá verður hún ‘needy’.
Þannig að… gerðu það sem þú segist ætla að gera -þegar þú segist ætla að gera það.
2. Hrósaðu óspart
Ekki halda aftur af þér með hrósið. Ef þú hugsar eitthvað fallegt um hana eða til hennar þá máttu ekki hika við að segja henni það. Ef þú ert t.d. að hugsa um hana og kemur engu í verk þá skaltu senda henni email og segja henni það. Ekki í hvert sinn samt (þá gæti hún orðið hrædd) en algerlega svona annað slagið. Hún á eftir að elska þetta og vera minnt á að þú ert sannarlega skotin í henni og ekki að fara neitt annað.
3. Ekki láta þig hverfa
Eitt af því sem margar konur óttast mikið er að um leið og þú missir sjónar á henni þá hættirðu að hugsa um hana –sérstaklega ef þú ert úti að skemmta þér með félögum þínum.
Flestar konur hafa þó engar áhyggjur af þessum strákakvöldum, enda viljum við stelpukvöld fyrir okkur sjálfar. En við vitum samt að þið eruð ekki eins og við -þannig að aðalumræðuefni kvöldsins sé kærastan þín. Þannig er það bara ekki. Við tölum oft mikið um ykkur en þið oftast um eitthvað annað og það er þess vegna sem það kemur stundum fyrir að ímyndunaraflið fer af stað hjá okkur. Þá máttu bara vera sætur og hringja eða senda sms og láta vita að þú sért að hugsa um kærustuna þína. Hún verður bara rólegri og elskar þig meira fyrir vikið.
5. Saman en samt ekki og samt saman
Þegar þið farið út saman, í partý eða boð eða á djammið, þá þurfið þið ekki að vera límd utan í hvort annað allt kvöldið. Engu að síður vill hún vita að þú sért stoltur af að vera með henni og nákvæmlega henni. Þetta er ekkert mál.
Náðu augnsambandi við hana svona yfir mannfjöldann, ef þú gengur framhjá henni er mjög ljúft að snerta handlegginn og ef hún gengur á undan þér inn í herbergi skaltu leggja lófann hlýlega á bakið hennar. Þetta finnst flestum notalega gott. Og treystu því að hún tekur ekki bara eftir þér og því að þú ert hrifinn af henni heldur langar hana þá ósjálfrátt að flýta sér heim og sýna þér hversu mikið hún er hrifin af þér!
5. Sýndu smá athygli
Konur vilja að tekið sé eftir þeim alveg eins og karlar. Þú gerir það vitanlega annað slagið en hefur ekki alltaf orð á því. Það eru mistök.
Þú átt alltaf að hafa orð á því ef þú sérð eitthvað sætt eða tekur eftir einhverju við hana sem þér líkar. Sama hvort um er að ræða einhvern góðan eiginleika, eitthvað sem hún klæðir sig í og/eða gerir.
Svona jákvæð skilaboð gera ekki annað en að styrkja sambandið og gera hana öruggari um að þú sért svona frekar mikið skotinn.
Farðu eftir þessum ráðleggingum og kærastan þín verður smátt og smátt örugg og afslöppuð að nýju. Það þarf jú tvo til að halda jafnvægi á vegasaltinu.
(ATH. Auðvitað eru sum sambönd þannig að karlmaðurinn er ‘needy’ aðilinn, og í samböndum samkynhneigðra getur annar aðilinn verið í þessu hlutverki en meðal gagnkynhneigðra virðist reynslan vera sú að það fremur alengara að stelpurnar séu svona, – en þeir/þær/þau mega taka þetta til sín sem vilja – knús*)
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.